mánudagur, mars 15, 2004

Bookmark and Share

Á ferð og flugi...nei ekki flugi


Klukkan sló tvö og kennarinn lauk við að útskýra miðannarprófið. Ég tók saman dótið mitt og setti það í bakpokann,svo kvaddi ég félagana og gekk út úr kennslustofunni. Hjólið stóð enn á sínum stað, læst fyrir utan bygginguna. Ég losaði það, skellti mér á bak og hjólaði heim. Þegar þangað var komið var Kalli búinn að finna til allt sem þurfti í ferðalagið. Við bárum dótið út í bílinn og Jói og Berglind komu með sitt dót. Öllu var troðið í skottið á kagganum og við brunuðum heim til Tótu. Auðvitað var hún tilbúin þegar við komum þangað, þannig að töskunni hennar var fleygt í skottið og ferðalagið hófst. Við ókum norður eftir highway 6 í áttina að Dallas. Eftir nokkra stund heyrðum við skrýtið hljóð og ég sá reyk út um aftur-hliðarrúðuna á bílnum. Ég hélt í fyrstu að hann kæmi úr gamla pallbílnum sem við vorum að fara framhjá, en nei...aldeilis ekki, þessi reykur kom úr bílnum okkar!! Kalli stoppaði bílinn í vegarkantinum og þá fylltist bíllinn af reyk, sem kom inn í gegnum loftælinguna...hólí mólí, hvað er eiginlega í gangi hér. Við stigum öll út úr bílnum og vélarhlífin var opnuð. Reimin sem snýr loftkælingunni hafði bráðnað í sundur. Oh, þvílikt vesen, góði kagginn!! Jæja, það var þá ekkert annað til ráða en að hringja í AAA og fá sendan dráttarbíl. Við biðum örugglega í hálftíma eftir dráttarbílnum og svo þegar hann loksins kom kíkti maðurinn á gripinn. Hann tók reimina og sagði að við gætum alveg keyrt bílinn, en við yrðum að hafa slökkt á loftkælingunni. Við sættumst á það og ákváðum að halda bara áfram. Ferðin gekk greiðlega fyrir sig og við vorum komin upp á hótel um sjöleytið. Þar skiptum við í partýgallann og drifum okkur yfir til Wylie, þar sem þorrablótið var haldið. Það var allt fullt af bílum fyrir utan húsið, greinilega margt á blóti. Við gengum inn fyrir og það var nánast fullt út úr dyrum , ekki bjóst ég við að það yrðu svona margir þarna. Á borðinu voru kræsingar á borð við hangikjöt, blóðmör, lifrarpylsu, sviðasultu, rúgbrauð, síld og ég veit ekki hvað og hvað, en best af öllu fannst mér að fá flatkökur mað hangikjöti...nammnamm, þetta var bara alvöru þorrablót. Það var að sjálfsögðu líka boðið upp á hákarl og brennivín, en ég sleppti því í þetta sinn (eins og alltaf). Það voru um 60 manns saman komnir þarna og það var bara mjög gaman. Að sjálfsögðu voru raddböndin þanin eins og siður er á þorrablótum. Við fórum aftur á hótelið uppúr miðnætti eftir vel heppnaða kvöldstund.

Við héldum af stað um klukkan níu morguninn eftir. Við byrjuðum á því að fara á IHOP (international house of pancakes), þar sem við slöfruðum í okkur morgunmat. Svo kíktum við aðeins til Trey og Shelley í leiðinni út úr Dallas. Þau voru hress að vanda. Heimleiðin gekk áfallalaust fyrir sig og bíllinn hagaði sér eins og til var ætlast, og slökkt á lofkælingunni allan tímann, sem var allt í lagi því það var ekkert heitt úti. Það hefði aftur á móti aldrei gengið yfir sumartímann. Við vorum komin heim seinnipartinn og var ekki annað að heyra á liðinu en að þau væru öll sátt við þessa ferð.

Við tókum fullt af myndum, endilega kíkið á þær.

 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim