laugardagur, mars 20, 2004

Bookmark and Share

Smá smjörþefur af franska hverfinu í New Orelans


Já, það var gaman í New Orleans. Við sáum mikið af furðufuglum þar, sem og öðrum fuglum. Veðrið var frábært, sól alla dagana og ca 25 stiga hiti. Við vorum komin þangað um fimmleytið á þriðjudeginum, eftir 7 tíma akstur. Við tókum því bara rólega þá um kvöldið, röltum um og fengum okkur nokkra öllara. Við fórum í Preservation Hall þar sem við hlustuðum á jazz bandið þar, það var mjög gaman. Þeir byrja að spila klukkan 8 á hverju kvöldi og spiluðu til miðnættis. Þessi staður er ekki notaður til neins annars og er lokaður þess á milli. Það myndast alltaf gífurleg röð fyrir utan staðinn, en það komast bara um 70 manns inn í einu. Það kostar fimm dollara inn og þeir spila í 40-45 mínútna lotum, svo taka þeir sér 15-20 mínútna pásu, þeir eru svo sem engin unglömb. Mér fannst þetta bara mjög gaman þó svo að ég sé enginn geðveikur jazzgeggjari. Á miðvikudagsmorguninn fórum við Kalli í rómantíska gönguferð meðfram Mississippi ánni. Þetta er engin smá á, og skítug. Reyndar er franska hverfið í New Orleans ekki það hreinasta heldur, óttaleg skítafýla þar. Við gerðum svosem ekki mikið, bara röltum um, fórum á franska markaðinn, fórum á Pat O'Briens þar sem við slöppuðum af og fengum okkur hurricane, helv...góður. En það var haldið áfram að sötra langt fram eftir kvöldi og nóttu. Það var fullt af fólki á götunum og perlur hvert sem litið var. Ég nældi mér í nokkrar perlufestar (þurfti reyndar ekki að sýna neitt til að fá þær). Svo tókst mér lika að ná mér í annars stigs brunasár á vinstri löppina, algjör snillingur. Þannig var nú mál með vexti að á miðvikudagskvöldinu var skrúðganga á Bourbon street, það voru fullt af Harley Davidson mótorhjólum og fremst í flokki voru lögreglumenn á slíkum hjólum. Við Kalli spurðum einn lögreglumannin hvort við mættum láta taka mynd af okkur með honum, honum fannst það minnsta málið. Asninn ég fór of nálægt púströrinu og rak löppina í það. Þetta er ekkert svakalegt, það bráðnaði bara smá skinn. En ég var iðin við að fá mér ískalt vatn á börunum það kvöldið, barþjónunum til mikillar mæðu. Svo lögðum við af stað heim um hádegisbil á fimmtudeginum...í mismikilli þynnku. Við tókum um 200 myndir í ferðinni, og eitt videoklipp af lögguskrúðgöngunni. Eitthvað af þessu fer svo á netið, vonanadi fljótlega.

 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim