fimmtudagur, júlí 01, 2004

Bookmark and Share

Út á lífið


Ég fór með Kate og Laura út að borða í gær, við ákváðum að halda aðeins upp á afmælin okkar Lauru (Linda kannast við að að ég er ekki bara afmælisbarnið á afmælisdaginn) og svo var þetta líka síðasta kvöldið sem Kate var í bænum þar sem hún er að fara til Alaska í þrjár vikur. Við fórum á On the Border, sem er mjög góður mexíkóskur staður. Við fengum okkur sitthvora margarítuna með matnum. Svo glopraði Kate því út úr sér við þjóninn okkar að við hefðum átt afmæli í vikunni...viti menn kemur hann og annar þjónn ekki bara með ís og súkkulaðiköku handa okkur. Ekki nóg með það, heldur létu þeir okkur standa upp á stól með salt og piparstauka í höndunum og áttum að dansa á meðan þeir sungu fyrir okkur...hversu amerískt er það!! Ég var nú ekkert alltof til í tuskið, en við létum til leiðast og gerðum okkur að fíflum, ég var allavega ekki ein í því og það er ekki eins og maður eigi eftir að hitta þetta fólk í framtíðinni. Svo vorum við að borga reikninginn þegar þjónninn kemur til okkar og spyr okkur hvort við værum nokkuð að flýta okkur. Okkur lá svosem ekkert á og hann bað okkur að hinkra í smá stund...ég verð nú að segja að mér leist ekkert á blikuna, sérstaklega því þjónarnir glottu út í annað í hvert sinn sem þeir gengu framhjá borðinu okkar. Stuttu seinna koma þeir með margarítur handa okkur, einhverja sérblöndu að þeirra sögn. Þær höfðu komið frá einhverjum þremur köllum sem sátu á borði skammt frá...þetta var bara eins og í bíómyndunum, ýkt asnalegt eitthvað. Ojæja, við sötruðum margaríturnar okkar og fórum svo að borðinu þeirra og þökkuðum fyrir okkur. Þeir spjölluðu pínu og það kom í ljós að Kate hafði verið að kenna 17 ára dóttur eins þeirra í fyrravetur...ji þetta var hálf hallærislegt eitthvað. Við bara þökkuðum pent fyrir okkur og létum okkur svo hverfa.

Eftir matinn var förinni heitið á skemmtistað sem heitir Cactus Canyon, þar sem vinkona Lauru var að halda upp á afmælið sitt. Þar voru einhverjir kallastripparar á ferð. Oh dear, okkur leist nú varla á blikuna þarna inni...sumar konurnar voru gjörsamlega að tapa sér yfir þessu. Við þökkuðum Guði fyrir að eiga svona góða menn og þurfa ekki að vera svona örvæntingarfullar. En okkur fannst þetta nú samt svolítið fyndið, hlógum bara og skemmtum okkur bara yfir þessu öllu, það þýðir ekkert annað. Við héldum svo heim á leið uppúr miðnætti.

 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim