ég læt það bara allt flakka
ég ætlaði nú ekki að "hræða" mína dyggu lesendur með síðustu færslu...en ég bara var ekki í stuði til að tjá mig mikið. Elskulegur afi minn dó rétt fyrir jólin. Núna eru bara svo margar tilfinningar að berjast um í mér og ég veit varla hvernig ég get greitt úr þeim nema með tímanum. Mér finnst svo ömurlegt að afi skuli vera farinn, já það er ömurlegt. Ég er líka reið og örg yfir þessu, út í hvað veit ég ekki. Það er bara svo fúlt að geta ekki hitt hann og spjallað við hann aftur. Svo er söknuðurinn og sorgin svo mikil og stundum hellist það yfir mig af svo miklum krafti að ég finn til í hjartanu...svo þegar maður byrjar að gráta þá er svo erfitt að hætta...Hef samt reynt að halda því í lágmarki í almenningi...vissi ekki að ég væri svona mikill vælukjói. Ég er líka þakklát fyrir hafa haft afa svona lengi og fengið að alast upp nánast í fanginu hjá honum og ömmu. Það eru ekki allir 27 ára sem eiga tvo afa og tvær ömmur. Svo er það ákveðinn léttir að vita að honum líður vel núna, hjá horfnum vinum og ættingum, og ég er nokkuð viss um að hann fylgist vel með okkur. Ég er nú orðin það gömul að ég veit hvernig lífið og tilveran virkar...maður er ekki eilífur...en maður getur bara ekki undirbúið sig undir svona. Það er bara svo skrýtið að maður sem hefur alltaf verið til staðar skuli vera farinn. Já, það er nú skrýtið, þetta líf, og margt sem maður kemur aldrei til með að skilja.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim