miðvikudagur, maí 23, 2007

Bookmark and Share

lestrarsumar


Jæja, þá er míns búin...komin í nokkurs konar sumarfrí. Skólaárinu lauk í gær með fundarsetum og starfsmannaferð þar sem farið var í rútu til Stokkseyrarbakka. Við fórum á kajak, sem var bara fínt, en eftir það fórum við í sund. Í lauginni skiptum við í lið og spiluðum sundbolta, þar var hamast í þó nokkurn tíma, svakalega gaman, manni fannst maður bara yngjast um mörg ár og vera kominn aftur í grunnskóla, svo mikill var hamagangurinn. Eftir sundið (gjörsamlega uppgefin vegna lélegs úthalds) var skundað á veitingastaðinn Við Fjöruborðið. Þar fengum við að borða þvílíka dýrindis máltíð að ég vissi ekkki hvort ég ætti að hlæja eða gráta, þetta var svo góður matur. Við fengum humarsúpu í forrétt, og svo humarveislu í aðalrétt. Ég held að ég hafi borðað hátt í 20 humra. Mikið rosalega var þetta gott. Svo sötraði maður hvítvín með til að fullkomna þetta. Þetta var ákaflega vel heppnuð ferð, mikið sungið og trallað.

Það fækkar í enskukennarahópnum í haust og það þýðir að ég mun kenna fjóra áfanga á næstu önn, aðeins einn af þeim hef ég kennt áður í dagskóla, einn í kvöldskóla og tvo hef ég barasta aldrei kennt áður. Ég sé því fram á að eyða sumrinu í að lesa bækur fyrir önnina og meira að segja búa til verkefnahefti fyrir einn áfangann þar sem við fundum engar bækur við hæfi. Vonandi eru þetta skemmtilegar bækur sem ég þarf að lesa.

 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim