miðvikudagur, september 24, 2003

Bookmark and Share
Dagurinn í dag er búinn að vera einn af þessum dögum.........ég byrjaði daginn klukkan átta á því að brjóta rúðu í svefnherbergisglugganum ($ fimm dollarar þar $), þetta eru svona asnalegir amerískir gluggar þar sem maður þarf að draga neðri helminginn upp og festa hann til að opna, og þegar ég ætlaði að loka honum, þá bara rann hann úr höndunum á mér og einn af 8 litlum flísum í neðri helmingnum brotnaði (hefði getað verið verra).

Svo fór ég á bókasafnið því ég ætlaði að vera svo dugleg að lesa....en ég gat bara engan veginn einbeitt mér, var eitthvað svo eirðarlaus, þannig að ég hjólaði heim rétt eftir hádegi. Þar fór ég á netið til að velja 4 greinar til að skrifa um í tveimur kúrsum. Það gekk ekki rassgat, því ég fann bara tvær greinar sem mér fannst áhugaverðar, en greinarnar þurfa að tengjast ESL (English as a second language/enska sem annað tungumál). Er ég allt of vandlát?

Ekki nóg með það, heldur gat ég engan veginn setið lengur inni (eftir 3-4 tíma setu við tölvuna) og rauk upp í skóla, bara til að þurfa ekki að hanga heima með eirðarleysi og pirring í líkamanum. Svo rúmlega fjögur áttaði ég mig á því að ég gleymdi möppunni heima, sem ég var að fara að nota í tímanum rúmlega fimm. Ég, upp á hjólið aftur, og þaut heim og náði í möppuna. Ég þurfti að hitta eina stelpu sem vildi endilega spyrja mig um íslensku fyrir einhvern kúrs sem hún er í klukkan 20 mín. í fimm. Það var heitt úti og ég svitnaði eins og svín við að hjóla svona fram og til baka. Sem betur fer hafði ég vit á því að grípa með mér auka bol þegar ég sótti möppuna, þannig að ég gat skipt um áður en ég fór í tímann...þannig að það var strippað á kvennaklósettinu þennan daginn.

Nú er dagurinn sem betur fer að kveldi kominn og vona ég að morgundagurinn taki blíðlega á móti mér.

 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim