mánudagur, janúar 12, 2004

Bookmark and Share
Þetta er svolítið langt...endaði í rúmum tveimur blaðsíðum í Word...úbbs...

Við vorum mætt tímanlega á völlinn á fimmtudaginn. Þegar við renndum upp að Leifsstöð stóð rúta þar fyrir utan og töskurnar streymdu út úr henni. Við drifum okkur út úr bílnum og gripum okkar töskur úr skottinu og hlupum inn til að ná á undan hópnum. Það hafðist og við komumst fljótlega til að tékka okkur inn. Konan sem afgreiddi okkur var bara mjög hress og spjallaði mikið (sem er frekar óvenjulegt á Íslandi), en hún sagði að því miður ætti hún bara engin sæti laus hlið við hlið. Við sögðum að það yrði bara að vera svo, en hún lét okkur fá sitthvort miðjusætið í níundu röð, þar væri gott fótapláss. Við þáðum það með þökkum og héldum áfram. Við kvöddum Má og Fanneyju og fórum í gegnum vegabréfaskoðunina. Þegar við vorum komin inn fyrir ákváðum við að kaupa einn pylsupakka og eitt flak af reyktum fiski, því við vorum með slatta af hvoru tveggja í farangrinum. Þetta gerðum við til þess að fá vottorð fyrir vörurnar til að sýna í tollinum í Baltimore. Við tókum áhættuna á að taka áhættuna (en ekki smygla vörunum inn). Það var eitthvað klúður hjá Icelandair þegar tekið var við brottfararspjöldunum. Áhöfnin var ekki mætt og þess vegna gátum við ekki farið inn í vélina og farþegarnir stóðu í þvögu fyrir neðan stigann í þó nokkurn tíma. Loksins kom áhöfnin og við gátum haldið af stað í vélina. Þegar við komum inn í vél sáum við að sætin okkar voru við innganginn og fótaplássið var þvílíkt að Kalli gat rétt úr fótunum og ekki náð í sætið fyrir framan!! Stelpan sem átti að sitja við gluggasætið Kalla megin bað hann um að skipta við sig þar sem hún var að ferðast með konunni hinum megin við hann. Hann sagði að það væri ekkert mál. Svo kom strákurinn sem átti að sitja við gluggasætið mín megin og ég spurði hann hvort honum væri sama að hann sæti við hitt gluggasætið. Honum fannst það ekkert mál þannig að við Kalli enduðum á því að sitja saman…heppin. Ég ætla alltaf að biðja um sæti í röð níu þegar ég flýg með Flugleiðum. Ferðin var mjög þægileg og gekk bara vel. Við komumst til Baltimore á tíma og komumst í gegnum tollskoðunina. Við sögðum tollverðinum að við værum með reyktan ÍSLENSKAN fisk og ÍSLENSKAR pylsur. Hann skeytti engu um fiskinn en vildi fá að sjá pylsurnar. Við sýndum honum þær og hann sagði að allt væri í lagi og við gætum haldið áfram. Annað fólk í tollröðinni þurfti að setja allar sínar töskur í gegnumlýsingu en okkur var hleypt í gegn án þess. Stundum er gott að vera Íslendingur, lítill og saklaus Íslendingur. Við komumst klakklaust á hótelið, þar sem við pöntuðum dýra og vonda pizzu. Við fórum snemma að sofa því við þurftum að vakna snemma til að ná fluginu til Dallas morguninn eftir. Við vorum bæði vöknuð um fimm á föstudagsmorguninn (löngu á undan vekjaraklukkunni) og ákváðum bara að drífa okkur á lappir og taka rútuna hálf sjö á völlinn.

Þegar þangað var komið bauðst okkur að tékka okkur inn fyrir utan, á gangstéttinni. Við gerðum það og báðum manninn um að setja okkur framarlega í vélina þar sem við þurftum að ná tengiflugi í Dallas. Hann sagðist ekki geta það þarna úti, en í tékkinu inni væri hægt að breyta sætunum. Við fórum inn og fengum sæti í 8 sætaröð (þessi vél var ekki eins og Flugleiðavélin og sætin því ekki eins góð) sem var tveimur röðum fyrir aftan 1. farrými. Við höfðum dálitlar áhyggjur af því að ná ekki fluginu til College Station, en þær áhyggjur voru óþarfar...eða það héldum við, þar sem vélin lenti hálftíma á undan áætlun í Dallas sem gæfi okkur góðan klukkutíma til að komast á milli bygginga. Við rampinn sem vélin okkar átti að leggja við var önnur American Airlines vél, sem átti ekki að fara fyrr en eftir korter, þannig að við þurftum að bíða...og jæja, við hefðum sam 50 mínútur til stefnu. Í ljós kom að vélin við rampinn okkar var biluð og þurftum við að bíða enn lengur og enduðum á að fara á næsta ramp..og þá var klukkan orðin tuttugu mínútur yfir tólf...vélin okkar til College Station átti að fara klukkan 12:48!!! Við hlupum út úr vélinni og þegar inn var komið benti starfsmaður vallarins okkur á að fara að hliði C29 þar sem við myndum taka lest að A1-19. Lestin kom strax og við tókum hana að Terminal A. Þar fórum við út og hlupum upp stiga og svo niður annan stiga til að ná rútunni yfir í A2, þaðan sem vélin okkar átti að fara...það voru 15 mínútur í brottför og rútan einungis 3 mínútur á leiðinni, þannig að við töldum okkur örugg að ná vélinni. Þegar við komum að hliðinu okkar var hurðin lokuð og enn 10 mínútur í brottför, kannski 9. Við spurðum einn starfsmanninn sem stóð þar um vélina okkar og hún leit í kringum sig og sagði að það væri ekki byrjað að hleypa inn. Við sögðum að það gæti ekki verið þar sem einungis 10 mínútur væru í brottför. Þá klóraði hún sér í hausnum og fiktaði í tölvunni og sagði að það væri búið að loka, vélin væri að undirbúa brottför. Svo byrjaði hún að prenta út ný brottfararspjöld fyrir okkur og sagði að við kæmumst með næstu vél sem færi klukkan 15:12, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Kalli tapaði sér algjörlega og hellti sér yfir hana, hvernig stæði á því að það væri búið að loka vélinni og enn tíu mínútur þangað til að hún færi. Konan var mjög dónaleg og baðst ekki einu sinni afsökunar, heldur sagði bara að það væri alltaf lokað tíu mínútum fyrir brottför til að hægt væri að dreifa þyngdinni um vélina. Við vorum sko ekki sátt við þetta viðmót og heimtuðum að fá að tala við einhvern sem réði. Við útskýrðum að miðinn okkar hafi verið keyptur í nóvember og þá átti flugið að fara frá Baltimore klukkan 7:47, svo var hringt í okkur frá American Airlines og okkur gert að breyta fluginu til 9:35, okkur fannst það heldur stuttur tími og sögðum manninum það, hann fullyrti að við myndum ná tengingunni á þessum 40 mínútum...sem voru svo ekki nema 30, þar sem öllu er lokað og læst tíu mínútum fyrr. Þessi kona kallaði svo í yfirmann sinn sem sagði ekkert af viti frekar en hinar tvær, við fengum ekkert frá þeim. Við vorum glorhungruð og þau gátu ekki einu sinni gefið okkur að borða (fengum bara djús og “granola bar” í vélinni frá Baltimore). Okkur finnst mjög einkennilegt að það er ekki hægt að bíða í eina mínútu eftir farþegum, þegar ekkert mál er að láta farþega bíða í hálftíma eða klukkutíma ef eitthvað bilar. Engin þeirra reyndi einu sinni að hafa samband við vélina sem stóð ennþá fyrir utan og athuga hvort væri í lagi að hleypa okkur inn, það var ekkert gert til að reyna að redda málunum. Okkur var bara sagt að við værum heppin að geta tekið næstu vél...blablabla. Þær gáfu okkur upp símanúmer til að hringja í og kvarta þar sem þær gátu ekkert gert. Við gerðum það og Kalli fékk samband við einhvern og sagði sólarsöguna enn einu sinni. Svo sagði manneskjan í símanum að þegar laust væri í næstu vél væri ekki beðið eftir farþegum og að hún væri nú reyndar bara að selja miða og gæti ekkert gert, svo gaf honum samband eitthvert annað sem slitnaði og við náðum ekki sambandi eftir það. Við tókum rútuna aftur til baka til að fá okkur eitthvað að borða, pirruð frá helvíti. Konan sem keyrði rútuna var alveg gáttuð á þessu öllu og taldi að það væri ekki löglegt að gefa farþegum innan við 45 mínútur til að ná tengiflugi.

Ég skil þetta ekki. Við tékkuðum okkur alla leið frá Baltimore til College Station og farangurinn líka. Þetta er sama flugfélagið og þeir hefðu átt að geta athugað hvaðan farþegarnir sem vantaði væru að koma og þá séð að seinkunin væri mjög lítil (ein mínúta eða svo). Mér skilst að töskurnar okkar hafi komist í vélina....oooo ég verð bara pirruð á að rifja þetta upp!!!

Við þurftum að bíða í tvo og hálfan tíma eftir næsta flugi og við biðum og biðum. Á meðan við biðum fylgdumst við með vélunum sem var veið að hleypa inn í og í eitt skiptið voru tíu mínútur í brottför og enn var verið að kalla upp farþega sem var ekki mættur...þá gjörsamlega sauð á okkur. Til að bæta gráu ofan á svart þá var vélin okkar biluð og okkur seinkaði um enn einn hálftímann. Ég ætla sko aldrei aftur að fljúga með American Airlines eða American Eagle...þeir geta bara átt sig.

 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim