Hey!! Var næstum búin að gleyma....
...að ég ætlaði að skella ferðasögunni hér inn.
Minneapolis St. Paul International Airport, 6.júlí, 2004, klukkan 17:15.Þessi dagur hefur verið frekar langur og hann er sko engan veginn að verða búinn. Ég vaknaði rúmlega fjögur í morgun, fór í sturtu og lauk við að gera mig tilbúna fyrir langt og strangt ferðalag. Shirlee kom til mín rétt fyrir fimm. Við skutluðum töskunum í bílinn hennar og brunuðum á Easterwood flugvöllinn í College Station. Þar þurfti ég að bíða í smá stund áður en byrjað var að tékka inn, þar sem ekki margir komast í flugvélina tók það ekki langa stund. Þegar ég bað ‘tékkunarmanninn’ um að tékka töskurnar mínar alla leið til Íslands svo ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þeim á leiðinni sagði hann við mig að því miður hefði American Eagle ekki gert samning við AirTran um að tékka farangur. Ég þurfti því að sækja töskurnar mínar af færibandinu í Dallas og dröslast með þær til að tékka inn hjá AirTran. Það gekk svosem klakklaust, enda starfsfólkið á flugvellinum mjög hjálplegt. Sem betur fer þurfti ég ekki að taka töskurnar í Atlanta, enda framhaldsflugið með AirTran líka, en þar sem AirTran og Flugleiðir hafa ekki heldur gert samning um farangurstékk þurfti ég aftur að dröslast með töskurnar að tékkinu í Minneapolis. Það var svosem ekkert langt að fara á milli færibandsins og Icelandair afgreiðslunni þannig að ég lifði það nú af. Nú sit ég í biðsalnum við hlið G8 þaðan sem Flugleiðavélin á að fara eftir ca. 2 klukkutíma. Geðveikt kúl að hafa fartölvu til að hafa ofan af fyrir sér á meðan maður bíður. Takk, Dabbi minn.
Reynsla mín með AirTran er því miður ekki góð og er ég ekki viss um að fljúga með þeim aftur. Í fyrsta lagi, að geta ekki tékkað farangurinn alla leið er frekar leiðingjarnt. Í öðru lagi, þá lenti ég við hliðina á MJÖG STÓRUM manni (það voru bara tvö sæti í röðinni mín megin) og hann gat ekki einu sinni setið bara í sínu sæti, heldur tók hann að minnsta kosti fjórðung af mínu sæti. Mér leið eins og sardínu í dós, en rolan ég, sagði auðvitað ekkert, enda öll sæti í vélinni full. Sem betur fer sat ég við gangveginn, annars hefði ég getað kafnað með fésið upp við gluggan og enginn hefði tekið eftir því. Svo í tengifluginu frá Atlanta til Minneapolis sat ég þeim megin sem eru þrjú sæti. Ég sat við gangveginn og í hinum sætunum sátu tvær indælar konur, en fyrir aftan okkur sat afi nokkur með tvo litla stráka á aldrinum 2-5 ára. Þeir möluðu alla leiðina og sá sem sat fyrir aftan mig (eldri strákurinn ca. 4-5 ára) var alltaf að sparka í sætið. Ég leit nokkrum sinnum aftur fyrir mig og hann hætti, en byrjaði svo að sparka fljótt aftur. Ég skildi svosem ósköp vel hvað það hlýtur að vera erfitt að vera lítill strákur og sitja kyrr í rúma tvo klukkutíma. Mér tókst samt að dotta megnið af leiðinni. Ég er enn frekar sybbin og ætla að reyna að sofa í Flugleiðavélinni. Skondið hvað manni líður alltaf betur að komast að Flugleiðaborðinu og tékka sig inn og fara svo í Flugleiðavélina og láta íslensku flugfreyjurnar stjana við sig, það er alltaf ákveðinn léttir. En nú er lítið annað að gera en að bíða...
Í 30000 feta hæð....örugglega yfir Canada eða Guð má vita hvar!!Það má nú segja að Flugleiðir hafi bætt mér það allvel upp að hafa þurft að sitja við hliðina á feita kallinum í AirTran fluginu. Ég fékk semsagt sæti við glugga í röð 5, sem þýðir bara það að sætin eru það stór að feiti kallinn hefði léttilega getað komist í það. Þvílíkur og annar eins lúxus eftir að hafa verið í kremju fyrr í dag. En ég get nú ekki sagt það sama um matinn. Það var einhver osta- og skinkufyllt kjúklingabringa með hrísgrjónum og það var eins og það væri marmelaði eða einhvers konar sulta í botninum undir hrísgrjónunum. Fékk mig til að hugsa um mömmumatinn og mig var farið að langa í mömmupizzu, mömmugúllas, mömmuþetta og mömmuhitt...djís, bara algjör mömmustelpa.
Geðveikt kúl að geta bara skrifað ferðasöguna jafnóðum inn í tölvu. Yfirleitt þykist ég ætla að skrifa hana, en enda svo á því að nenna því ekki, eða vera búin að gleyma stórum hluta. jæja, ætli maður verði ekki að fara að leggja sig svo ég verði nú spræk þegar mamma kemur að sækja mig á flugvöllinn (hehe...minnti mig á “hún mamma kemur í bæinn bráðum...)
Svona fór um sjóferð þá...ég komst heim heilu og höldnu. Við mamma fórum í þetta líka fína morgunkaffi til tengdó í mosó, erinduðumst í Reykjavíkinni og héldum svo heim í sveitina þar sem alls konar brúðkaupsföndur beið okkar.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim