föstudagur, desember 31, 2004

Bookmark and Share

heim í Aggieland!


Jæja, þá erum við komin aftur í Aggielandið góða eftir gott ferðalag. Við lögðum af stað að morgni annars í jólum og héldum áleiðis til Big Bend, sem er þjóðgarður í suð-vestur hluta Texas, við landamæri USA og Mexico. Þar sem þetta ríki er svo rosalega stórt gistum við eina nótt í Fort Stockton áður en við komumst í garðinn, en það er tveggja tíma akstur frá garðinum. Þegar í garðinn var komið byrjuðum við á því að skoða okkur um, það var alveg rosalega fallegt þarna, há fjöll (eitt sem minnti mig á ofvaxinn Systrastapa) og mis-mikill gróður. Niðri á sléttunum var takmarkaður gróður, kaktusar og einhverjar smá hríslur, en í fjöllunum var aftur á móti gróðursælla, en þar voru skógar. Gististaðurinn var mjög skemmtilegur, það er smá túristaþorp með hóteli og veitingastað staðsett inn á milli fjalla sem mynda smá hring í miðjum garðinum. Það var mjög fallegt þar. Við fórum í þriggja tíma göngu upp á eitt fjallið í frábæru veðri. Við skoðuðum Rio Grande, sem er áin sem skilur að Bandaríkin og Mexico, iss, þetta er bara smá spræna, hún er allavega ekki grand þar sem við sáum hana. Okkur tókst ekki að sjá birni eða fjallaljón, en við sáum villisvín, dádýr og hlaupafugla (roadrunner). Held að ég láti myndir tala sínu máli, ég set þær inn fljótlega. Við eyddum tveimur dögum í garðinum og ókum út úr garðinum um kvöldið og gistum aftur í Fort Stockton. Rétt eftir að komið er úr garðinum er landamæralöggan með eftirlitsstöð, til að reyna að komast hjá smygli á ólöglegum innflytjendum og eiturlyfjum o.s.frv. Við vorum stöðvuð og spurð hvort við værum Bandarískir ríkisborgarar. Neibbs, við erum Íslendingar. Já, einmitt, eins og það sé eitthvað merkilegt. Löggan vildi fá að sjá vegabréfin okkar. Már og Fanney voru sem betur fer með sín vegabréf, en við Kalli höfðum ekki tekið okkar með, þar sem við fórum nú ekkert út úr landinu (við þurfum nefnilega pappíra frá skólanum til að komast inn í USA aftur ef við förum úr landi). Við sögðum löggumanninum að við værum nemendur við Texas A&M og hefðum ekki tekið með okkur neina pappíra. Hmm...það var ekki nógu gott. Maðurinn tók skilríkin okkar (Texas ökuskírteinin og nemendaskírteinin) og sagði okkur að leggja bílnum til hliðar á meðan hann athugaði hvort við værum í raun lögleg í landinu. Á meðan við biðum kom önnur lögga út og hélt yfir okkur góða ræðu. Við erum semsagt lögbrjótar, því við eigum að vera með þessa pappíra með okkur þegar við ferðumst, gætum þurft að greiða háar sektir eða að dvelja í fangelsi í allt að 30 daga og jafnvel send úr landiPrisoner...ji mitt hjarta byraði hamast. Hann sagði ýmislegt sem við höfðum ekki hugsað út í...eins og að þeir eiga ekki að sanna að við séum lögleg, heldur er það á okkar ábyrgð að vera með gögnin um það. Svo eru margir sem koma löglegir inn í landið, til dæmis sem stúdentar, og svo þegar vísað þeirra rennur út og þeir eiga að drullast heim til sín, þá gera þeir það bara ekki og verða því ólöglegir í landinu. Eftir nokkra stund kom hin löggan aftur og sagði að við værum skráð með stúdenta-visa í kerfinu og allt væri í gúddí. Sem betur fer leyfðu þeir okkur að halda áfram án nokkurra eftirmála. Okkur hefði aldrei dottið í hug að þetta væri svona mikið mál. Þegar við komum heim frá Californiu í sumar, lentum við í eins eftirliti, hann spurði okkur hvort við værum ríkisborgarar, við sögðum bara nei og hann leyfði okkur að fara. Samt vorum við með troðfullan bílinn af dóti, í aftursætinu líka, og teppi yfir öllu draslinu...hefðu getað verið nokkir Mexíkanar þarna undir...eitt er víst að pappírarnir fara með okkur í hvert skipti sem förinni er heitið út fyrir bæinn!!!

 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim