þriðjudagur, febrúar 17, 2004

Bookmark and Share

Andvaka


Ég átti í erfiðleikum með að sofna í gærkveldi. Magnað hvað hugurinn er öflugur. Þegar ég var komin undir sængina fór hugurinn á flakk og fyllti heilabúið af alls konar skrítnum hugsunum. Ég fór að hafa áhyggjur af náminu, allt í einu fannst mér ég þurfa að læra svo rosalega mikið. Ég á að halda kynningu á köflum 22 og 24 í Multicultural Research aðra helgi og það fer alveg að koma mars þar sem ég þarf að halda tvo fyrirlestra og svo kemur apríl og ritgerðaskil í byrjun maí og ég er ekki byrjuð á neinni þeirra. Svo reyndi ég að telja kindur og ímyndaði mér að þær væru að stökkva inn í gömlu réttina austur í fossum, en þær stukku svo ört að ég náði ekki að telja þær. Þá fór ég að rifja upp þegar öllu fénu var smalað af landareigninni heima og inn í réttina. Svo voru kindurnar bundnar og við rúðum þær með gömlu klippunum. Afi tók helminginn af rollunni og við ormarnir skiptumst á að rýja hinn helminginn, samt var afi alltaf búinn langt á undan okkur. Þá var alltaf gott veður og amma Kara kom með djús, flatkökur, kleinur og fleira gotterí handa okkur í kaffinu. Svo áður en ég vissi af var ég sofnuð og komin inn í draumalandið. Ekki slæmt að sofna við svona fallegar hugsanir.

 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim