sunnudagur, nóvember 26, 2006

Bookmark and Share

Home Sweet Home


Jæja, þá er maður kominn heim aftur í hjónabandssæluna, mikið gott.
Ítalíuferðin var bara mjög fín. Við komum til Taranto seint á mánudagskvöldið og gerðum ekkert annað en að koma okkur í háttinn þegar þangað var komið. Hótelið hefur örugglega verið fínt á ítalskan mælikvarða, en það var ekki mjög hlýlelgt. Flísar á gólfum og sturtuklefinn að detta í sundur. Maður endaði allt í einu berrassaður í sturtuklefanum með hurðirnar í fanginu, og nei, það var sko ekki bara brussuskapur. Það var ekkert verið að eyða peningum í óþarfa þægindi eins og kaffivél eða hárþurrku.
Á þriðjudeginum var farið í ferð til Lecce og Otranto en það eru bæir í ca 2-3 tíma fjarlægð frá Taranto. Við gengum um bæina og skoðuðum stórar og tígulegar kirkjur. Svo borðuðum við hádegismat á bæ uppi í sveit og það var sko enginn smá máltíð. Við sátum og átum í tvo tíma. Mér var orðið illt af þessu áti. Ég skil ekki hvernig Ítalir fara að þvi að borða svona mikið...ætli þeir séu ekki bara í góðri þjálfun.
Miðvikudagurinn fór allur í vinnu við verkefnið (já, þetta var ekki leikur út í gegn) enda á nógu að taka. Við prufuðum verkefnin okkar á ítölskum, portúgölskum, frönskum og belgískum nemendum sem svo lögðu mat sitt á það. Maður lærði barasta heilmikið á þessu öllu. Um kvöldið fórum við í mat heim til eins ítalska kennarans þar sem mér tókst aftur að borða mér til óbóta.
Fimmtudagurinn fór svo aftur í ferðalag, í þetta skiptið til Melfi og Venosa, sem eru ennþá lengra í burtu en hinir staðirnir. Þarna fengum við að skoða fleiri kirkjur og kastala, sem og fornar rústir Rómverja og gamalt klaustur sem aldrei var fullklárað. Það var einstakt að sjá þessar minjar og magnað að hugsa til þess að þær hafa verið þarna öldum saman, sumar hverjar frá því löngu fyrir Kristsburð.
Á föstudagsmorgninum stálumst við aðeins á markaðinn áður en við héldum upp í skólann til að klára vinnuna. Það var hægt að kaupa allan fjandann á þessum markaði; allt frá matvælum og snyrtivörum til fatnaðar og vefnaðarvöru, alltaf gaman að kíkja á svona markaði. Megnið af deginum fór svo í að klára vinnuna við verkefnin og skipuleggja næsta fund sem verður hér á Íslandi í mars á næsta ári. Okkur tókst að ganga í smá stund um Taranto áður en við þurftum að leggja í hann til Bari, en þaðan flugum við til London, Stansted. Þar gistum við í eina nótt á þessu fína hóteli og satt að segja fannst mér ég vera komin aftur í siðmenninguna við það að koma á Hilton hótelið í Stansted. Ekki bara það að herbergið var mjög hlýlegt, með kaffikönnu og hárþurrku, heldur var það með baðkari og sturtu sem virkaði mjög vel, straujárni og borði, þykkum og hlýjum sængum og síðast en ekki síst enskt mál í sjónvarpinu og starfsfólk sem skildi ensku og gat svarað á móti á skiljanlegri ensku. Við flugum svo heim í gær og það var nú mikið gott að komast á klakann þótt það sé skítakuldi. Það var svo fínt útsýni þegar við flugum við suðurströndina að maður sá langar leiðir. Það tók okkur einungis um tíu mínútur að fljúga frá Mýrdalssandi og til Keflavíkur. Munur ef maður gæti alltaf verið svona snöggur austur. Ég tók nokkrar myndir úr vélinni og vona að þær hafi komið vel út.

Framundan er svo bara að klára kennsluna, en það er bara ein vika í prófin. Það verður því nóg að gera í þessari viku að undirbúa gríslingana undir þau.

Þessari maraþonfærslu er lokið...enda nóg komið að sinni.

 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim