þriðjudagur, desember 16, 2003

Bookmark and Share
Það er nú algjör óþarfi að fara algjörlega úr límingunum út af einhverjum heimskulegum frekjukönnunum, kæru frændur, Steinar og Helgi. Ég ætlaði að vera löngu búin að taka þær út en hef ekki haft tíma til þess. Ég hef rétt svo komist í tölvuna til þess að skoða póstinn minn einu sinni til tvisvar á dag, því að Kalli minn er að lesa undir próf hérna við tölvuna og ég vil ekki trufla hann, vil ekki þurfa að reka hann í burtu til þess eins að stússast á netinu.

Ég er sem sagt bara búin að vera löt undanfarna daga...mikið rosalega er það þægilegt...og þarf ekki einu sinni að hafa samviskubit yfir því, allavega ekki mikið. Reyndar er ég búin að þrífa mest alla íbúðina (Kalli hefur verið að nota aukaherbergið og því vil ég ekki trufla hann með einhverju þrifæði) og versla fullt af jólagjöfum.

Reyndar var dálítið útstáelsi á mér um helgina. Á föstudagskvöldið fórum við heim til Tony’s og Cristin, en þau buðu góðum hópi heim til sín í tilefni þess að kennslu var lokið í MBA prógramminu. Við stoppuðum nú ekkert lengi þar, vorum komin heim um miðnætti. Kalli þurfti svo að mæta á laugardagsmorgun og vinna sjálfboðavinnu í “food bank”, þar sem hann var frá 9-1 að sortera og raða mat sem fólk hafði gefið til góðgerða.

Ég var búin að reyna að smala saman stelpunum sem eru með mér í tímum. Ég stakk upp á því að hittast og gleðjast yfir annarlokum og fékk bara aldeilis góðar undirtektir. Við ætluðum að hittast á Dixie Chicken klukkan níu á laugardagskvöldið. Þegar ég mætti á staðinn (stundvíslega að sjálfsögðu), var ein mætt, Ana (þessi frá Costa Rica). Ég settist hjá henni og við keyptum okkur bjór og spjölluðum í smá stund, þangað til Homayra (frá Íran) og Junhui (frá Kína) komu. Homayra var alveg í sjokki þegar hún kom inn, því hún hélt að Dixie Chicken væri veitingastaður en ekki hard core kúrekabar, hún hafði nefnilega aldrei stigið fæti inn á bar áður (hún er múslimi og þeir eru víst ekki mikið fyrir svona pöbbarölt). Junhui er heldur ekki mikið fyrir partýstand og þær stoppuðu því ekki lengi. Við Ana vorum því bara tvær eftir, sátum aðeins lengur, kláruðum bjórinn og spjölluðum um heima og geima þangað til við fórum heim, uppúr ellefu. Þetta var alveg rosalega fínt, mér líkar mjög vel við Ana. Það er alla vega ekki hægt að segja annað en að ég hafi reynt að hrista þennan hóp saman. Kannski erum við bara allar svo ólíkar, okkur kemur rosalega vel saman í tímum og svoleiðis, en við höfum reyndar ekki gert mikið saman fyrir utan kennslustofuna, bara þetta eina skipti þegar við fórum heim til Dr. Rasekh.

Sunnudagurinn fór í þrif. Um kvöldið hélt svo góðgerðarstarfsemin áfram hjá MBA prógramminu, en í þetta sinn voru skemmtiatriði og uppboð á ýmsum hlutum á einum skemmtistaðnum. Það var rosalega gaman, svaka stemning, við tókum slatta af myndum sem verða vonandi settar inn á síðuna mína ef ég hætti að vera svona helv...löt. Hér er samt smá sýnishorn af skemmtiatriðunum sem voru í boði!

 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim