sunnudagur, desember 07, 2003

Bookmark and Share
Ég fór til Houston í morgun í einum kúrsinum. Þurfti að vakna fyrir sex þar sem mæting var klukkan hálf níu í Houston, en það tekur um 1 1/2 tíma að aka þangað. Við hittumst á hótelinu þar sem ráðstefnan var haldin, Dr. Larke, sem er kennarinn okkar, kynnti okkur fyrir vinkonu sinni, Dr. Geneva Gay (ég veit, rosa sniðugt eftirnafn, haha), en hún skrifaði einmitt eina af bókunum sem við notuðum í kúrsinum. Þar sem ég er svo skýr, tók ég bókina með mér og fékk hana áritaða (þetta er rosa fín bók, ætla ekki að selja hana). Ástæðan fyrir förinni var að fara á LASER ráðstefnu, við sátum einn fund þar fram að hádegi. Eftir hádegismatinn var förinni heitið á Holocaust safnið í Houston. Þetta safn er tileinkað helförinni í seinni heimsstyrjöldinni. Að fara í þetta safn var alveg rosaleg upplifun, maður var gjörsamlega niðurdreginn eftir þetta. Við fengum 'tour' um safnið, og konan sem fylgdi okkur og rakti sögu gyðinganna á þessum hræðilega tíma var orðin klökk undir lokin, samt vinnur hún við þetta. Það er fullt af ljósmyndum, alls konar munum sem gyðingar náðu að bjarga frá nasistunum, og videoklippum af Hitler. Úff, ég mæli sko alveg með því að fara þarna, en sumar myndirnar eru ekki við hæfi viðkvæmra, enda eru þær felldar niður í vegginn þannig að maður getur gengið framhjá þeim án þess að þurfa að horfa á þær. Þetta verður eitthvað svo ljóslifandi fyrir manni, manni hefur alltaf fundist seinni heimsstyrjöldin vera eitthvað sem gerðist fyrir löngu síðan, eitthvað svo fjarlægt sem maður las aðeins um í sögubókum í grunnskóla, en fór aldrei djúpt í. Svo endaði skoðunarferðin í smá bíósal, þar sem sýnd var 20 mínútna mynd, þar sem tekin voru viðtöl við nokka gyðinga sem lifðu af og urðu vitni að því þegar fjölskyldur þeirra voru sendar í gasklefann. Í Houston búa allmargir gyðingar sem komu hingað eftir stríðið og eru það m.a. þeir sem gáfu safninu ýmsa muni og sögðu sögur af því sem þeir upplifðu. Átakanlegt.

 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim