laugardagur, febrúar 21, 2004

Bookmark and Share

Fjörugur Fimmtudagur


Ég fór í hádegismat til Sook-Kyung á fimmtudaginn. Hún bauð ESL-hópnum úr Sociolinguistics tímunum, þ.e.a.s. ég, Hye-Yeong (frá Kóreu), Shufen (frá Taiwan) og Hitomi (frá Japan). Þetta var aldeilis fínt. Við fengum núðlusúpu og sushi rúllur (heimatilbúnar að sjálfsögðu), þær voru að reyna að kenna mér að borða með prjónum. Mér fannst það bara ganga alveg ágætlega, en þær hlógu bara að mér (var svolítið klaufaleg fyrst). Það er svolítið erfitt að borða sleipar núðlur með prjónum, þetta voru ekki svona litlar og aumingjalegar mínútunúðlur sem eru allar í flækju heldur almennilegar hlussunúðlur (eitthvað fyrir mig!), þykkari en spaghetti. Ég smakkaði sushi í fyrsta skipti og mér fannst það allt í lagi, svolítið skrýtið, en alls ekki vont. Við sátum á gólfinu og borðuðum við lágt borð, já..þetta var svona alvöru. Við spjölluðum í nokkra klukkutíma!!! Tíminn getur liðið svo hratt þegar maður skemmtir sér.

Þar sem MBA prógrammið var að klára lokaprófin á fimmtudaginn var happy hour á Dixie Chicken. Sumir mættu þar strax klukkan þrjú um daginn og byrjuðu að sötra bjór. Enda var liðið all skrautlegt þegar líða fór á kvöldið. Við kíktum aðeins þangað seinni partinn en stoppuðum ekki lengi. Fórum heim og borðuðum kvöldmat og svo fór Kalli í körfubolta klukkan níu. Þegar hann kom heim eftir boltann kíktum við aftur á Chicken-inn og sumir þar voru gjörsamlega á perunni, búnir að drekka síðan þrjú um daginn, svo hafa örugglega lang flestir keyrt heim um nóttina. Þar sem Jerod og Kalli fengu sér vel í glas tókum við Kate ekki annað í mál en að við myndum keyra heim og slepptum því öllum drykkjuskap þetta kvöldið. Um tvöleytið langaði strákana að fara á IHOP (sem er pönnukökustaður, sá sem Jóna Hulda leikur í auglýsingu fyrir) og við fengum okkur 'morgunmat'. Eftir matinn keyrði ég bílinn hans Jerods og Jerod heim til þeirra og Kate kom með bílinn okkar og Kalla þangað líka. Hún vildi síður keyra bílinn hans Jerods þar sem hann er beinskiptur, og þar sem ég er svo klár keyrði ég hann. Það var sem sagt farið frekar seint að sofa þrátt fyrir áform um að fara að spila golf klukkan tíu morguninn eftir.

 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim