munnræpa
við fórum semsagt á landsleikinn í gær, allt í lagi leikur svosem og stemmningin fín á íslenskan mælikvarða. Eitt sem angraði mig í gær var gaurinn sem sat fyrir aftan mig. Hann talaði út í eitt, allan leikinn, hátt og snjallt. Það fer ekkert í taugarnar á mér þegar fólk er að hrópa hvatningarorð til liðsins síns og syngja og tralla, gott mál, en þessi gaur gerði lítið annað en að lýsa leiknum og tuða: "nei, hann setti boltann útaf, af hverju gerði hann það?" án þess þó að vera að spyrja einhvern sérstakan. "nauj, þetta var naumt mar' hann varði hann." Ef ég þarf lélega leiklýsingu þá horfi ég á sjónvarpið. Þetta er næstum jafn pirrandi og að lenda fyrir framan ofvirkan krakka í flugvél sem sparkar í sífellu í sætisbakið. Mig langaði mest að snúa mér við og troða húfunni hans upp í hann, en þar sem ég er vel upp alin þá lét ég það vera.
Talandi um lélegar lýsingar í sjónvarpi...je minn eini. Við vorum að horfa á Sýn um daginn, nánar tiltekið útsendingu frá pókermóti í Bandaríkjunum. Maðurinn sem var að lýsa mótinu var agalegur. Þetta var ekki í beinni útsendingu og viðtölin við gaurana sem duttu úr spilinu var textað. Af hverju var ekki hægt að texta hitt líka. Maðurinn var illa talandi og gerði ekki annað en að sjúga upp í nefið. Það var svo augljóst að hann var að þýða það sem amerísku þulirnir voru að segja (því stundum heyrði maður hvað þeir sögðu) og hann gerði það afar illa. Ég fékk bara illt í málvitundina við að hlusta á þetta og var að því komin að senda kvörtunarbréf til Sýnar...kannski geri ég það bara.
Kvarta meira síðar :-)
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim