aldeilis yfir sig bloggað
sumir hefðu nú bloggað yfir sig með svona risa færslum eins og á sunnudaginn...og ég var nú ekki langt frá því. Held að ég sé samt búin að ná mér eftir það. Þessi vika hefur verið bilun. Það eru margir lausir endar sem ganga þarf frá áður en prófatörnin byrjar, en það þýðir að allt slíkt þarf að klárast í þessari viku. Sem betur fer bý ég svo vel að eiga dásamlegan eiginmann sem er ofsalega klár og hefur gjörsamlega reddað konunni sinni í 'einkunnautanumhaldi' (nýyrði sem má lesa á ýmsa vegu). Í eðlilegum orðum, þá kenndi hann mér á hið merka forrit Excel, þar sem ég get sett inn allar einkunnirnar og sett in mis-einfaldar formúlur sem reikna allt út fyrir mig. Þá er maður ekki að eyða tímanum í að berja á vasareikninum við að reikna út kennaraeinkunn fyrir hvern einasta nemanda; Excel sér bara um þetta fyrir mig! Nú horfa hinir kennararnir öfundaraugum á fínu skjölin mín og það eina sem ég þarf að gera er að smella á 'print' og þá prentast einkunnirnar út á meðan margir sitja sveittir við reiknivélina. Mikil lukka þar.
Annars var nú ekki ætlunin að skrifa einhverja leiðindafærslu um Excel...það bara gerðist óvart. Ég var að hugsa um að skrifa um stereotýpur. Þó að það sé rangt að setja alla undir sama hattinn, eða segja að allir Íslendingar séu svona og allir Danir hinsegin, þá er oft svo mikið til í þessu öllu saman. Í Taranto vorum við að vinna með hinum ýmsu þjóðum og það var svolítið skondið að sjá hversu mismunandi fólkið er. Ítalirnir voru mjög örir og töluðu hátt og mikið, einnig með höndunum, svo voru þeir ekki mjög skipulagðir, allavega voru þeir ekkert að stressa sig yfir skipulaginu. Belgarnir voru sallarólegir og með allt á hreinu, einstaklega skipulagðir. Pólsku stelpurnar voru mjög duglegar og pínu stressaðar yfir að geta ekki klárað vinnuna. Þetta voru mjög ólíkir hópar og gaman að fylgjast með þeim vinna saman...jæja, ég má nú ekki fæla Ólu frænku frá blogginu með annarri maraþonfærslu. Læt þetta duga í bili.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim