sunnudagur, febrúar 29, 2004

Bookmark and Share
Það var nóg um að vera í gær. Það mikið að ég hef eytt í mesta lagi einum til einum og hálfum tíma hér heima. Ég fór semsagt í skólann klukkan níu og var þar til rúmlega þrjú. Þá hjólaði ég heim og tók eftir því að hurðin var opin að íbúðinni. Ég trítlaði upp stigann með hjólið undir annarri hendinni og læsti því fyrir utan. Þá kom hann Kalli minn í dyragættina og spurði hvort ég vildi ekki koma á hafnaboltaleik, Jerod og Kate væru þar. Jújú, ég var alveg til í það og skaust inn til að skipta um föt. Við fórum á okkar fyrsta hafnaboltaleik, Texas A&M á móti New Mexico. Þetta var mun skemmtilegra en ég hafði haldið, því hafnabolti er nú ekki sú hraðasta og mest spennandi íþrótt sem er stunduð. Það var heilmikil stemning á pöllunum, sungið, kallað og dansað. Leiknum lauk með sigri A&M 11 stig gegn 10, sem ég held að séu svolítið mörg stig í einum leik í háskólaboltanum. Eftir leikinn fórum við heim, ég skellti mér í sturtu og við borðuðum kjúklinga fajitas, afgang sem ég tók með mér af Margarita Rocks, þar sem við Kate fengum okkur að borða kvöldið áður, en það var bara aldeilis gott. Svo fórum við og sóttum Jerod og Kate og héldum heim til David Davis, sem er í MBA prógramminu. Þangað komu þrír aðrir úr prógramminu með konur sínar. Við skiptum í þrjú lið og spiluðum Trivial Pursuit. Við vorum í liði með Jerod og Kate...og að sjálfsögðu unnum við. Dönskukunnáttan okkar kom sér vel í einni spurningunni, því spurt var hvað Danir kölluðu Julemanden...tíhí...það vissi það enginn nema við Kalli. Svo fékk eitt liðið spurningu þar sem spurt var hvað þú ert að segja við manneskju ef þú segir Jeg älskar dig ...gaman að þessu. Við komum svo ekki heim fyrr en um eittleytið, þá vorum við orðin svolítið þreytt eftir annasama viku, enda sváfum við út í morgun.

Ég hef ekkert heyrt í þvottabirninum síðan á fimmtudaginn. Vona að hann hafi komist út.

 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim