Dagur handa pabba
Ég ætla að tileinka deginum í dag honum pabba mínum. Mér finnst sko ekkert sanngjarnt að hafa mæðradag en engan feðradag.
Elsku pabbi minn, ég hugsa vissulega til þín á hverjum degi, en dagurinn í dag er sérstaklega tileinkaður þér. Ég hugsa um allt sem þú hefur gert fyrir mig og rifja upp góðar minningar: hvernig þú vaktir okkur í skólann á morgnana og varst alltaf búinn að finna til morgunmatinn handa okkur systkinunum. Ég var alltaf svo montin að þú skyldir vera pabbi minn af því að öllum skólakrökkunum fannst þú svo frábær og vildu helst koma með í þínum skólabíl. Ég man þegar ég fór með þér í traktornum þegar þú fórst með kindurnar upp á afrétt...ég var reyndar alltaf með þér í traktornum. Ég man þegar þú keyptir handa okkur kók í gleri og prins póló um helgar...rosalega fannst mér það gott. Svo þegar þú dróst okkur upp brekkurnar á snjósleðanum þegar við renndum okkur niður í lautina. Ég man hvað mér fannst þú og mamma ótrúlega klár að geta ratað í Reykjavík. Ég er rosalega þakklát að eiga svona góða foreldra.
Elsku pabbi minn, takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig.
Ég held að fáir geti neitað því að ég hafi löngum verið óttaleg pabbastelpa.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim