laugardagur, júní 19, 2004

Bookmark and Share

og það er nú það


Mikið rosalega hefur maður gott af því að kynnast fólki frá mismunandi löndum og menningarheimum. Við höfum mikið verið að tala um hefðir og venjur í okkar löndum og Íslendingurinn í mér verður alltaf stærri og stærri. Mér finnst gaman að geta frætt aðra um landið mitt og sögu þess. Um daginn var ein tyrknesk vinkona mín með fyrirlestur um Tyrkland og hún byrjaði að spyrja okkur hvað við vissum um landið. Allir sögðu eitthvað og kennarinn sagði að henni þætti tyrkneskar konur mjög fallegar. Þá varð ég nú að fræða bekkinn minn um mína kenningu af hverju þær eru svo fallegar...jú, það var þann 16.júlí 1627 sem Tyrkir komu að ströndum landsins og tóku með sér fögur íslensk fljóð...þess vegna eru tyrkneskar konur svo fallegar. Svo sýndi ég þeim þetta myndband...það vakti mikla lukku!
Þegar ég fór í tímann á fimmtudaginn þar sem við áttum að tala okkar tungumál og bekkurinn átti svo að giska á hvaðan við kæmum. Aðeins einn giskaði á Ísland...aðrir giskuðu á Svíþjóð, Noreg, Danmörku, Finnland, Þýskaland, Holland og jafnvel Tyrkland. Ég vildi að ég ætti upphlut. Þá hefði ég getað verið í honum þarna, það hefði verið sniðugt. Ég var nefnilega spurð hvort Íslendingar ættu þjóðbúning.

Í alvöru talað þá finnst mér mjög mikilvægt að halda uppi hefðum og siðum. Það er ekki nóg að kunna sögu landsins heldur líka fjölskyldunnar. Mig langar að börnin mín og barnabörnin viti um forfeður sína; ömmur sínar og afa, og langömmur og langafa o.s.frv. Mig langar til dæmis að vita meira um hvað afi og Láki brölluðu þegar þeir voru ungir. Þetta eru ómetanlegar upplýsingar sem ekki er hægt að fletta upp í sögubókum.

 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim