fimmtudagur, mars 01, 2007

Bookmark and Share

skóhlífar og hor í nös


Þessa dagana eru svokallaðir skóhlífadagar í Borgó. Þá er hefðbundin kennsla lögð niður og nemendur fá tækifæri til að velja sér hin ýmsu námskeið sem eru í boði á þessum tveimur dögum. Síðan lýkur herlegheitunum með Glæsiballi í skólanum í kvöld. Þar mæta allir í sínu fínasta pússi, borða saman og skemmta sér fram eftir kvöldi. Kennarar munu þjóna til borðs. Þetta verður svakalega gaman. Á skóhlífadögunum er það starf kennaranna að bjóða upp á námskeið og fylgjast með mætingu á námskeiðin. Ég ákvað að ég hef ekkert fram að færa þegar kemur að námskeiðum og er því búin að vera að merkja við mætingu. Ég fór í Egilshöll í gær þar sem krakkagormarnir fóru á skauta og eftir þá mætingamerkingu fékk ég hor í nös. Það var svolítið kalt þar en ég var vel klædd...alveg satt; í dúnúlpu með trefil og hanska...var meira að segja í sokkabuxum líka. En mikið rosalega voru krakkarnir duglegir að skauta, það var gaman að sjá. Ég er reyndar að fara aftur þangað núna klukkan 9. Vona bara að ég komi ekki til baka með lungnabólgu!

 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim