mánudagur, september 10, 2007

Bookmark and Share

Andlát


Ég hef nokkrum sinnum loggað mig inn á bloggsíðuna en einhvern veginn ekki fengið andann yfir mig, hafði enga löngun til að blogga, semsagt andlát.

Svava amma fékk blóðtappa í höfuðið fyrir tveimur vikum síðan og lá á spítala í viku, fyrst með smá meðvitund og svo engri...við vöktum yfir henni í viku en hún dó aðfaranótt sunnudagsins 2. september, andlát. Þetta hefur verið svakalega erfiður tími, enda gerðist þetta allt mjög snöggt. Ég er sjálf búin að vera í hálfgerðu móki síðastliðnar tvær vikur vegna þessa. Þurfti að spyrja nemendurna mína hvað ég hafi nú verið að kenna þeim, því ég mundi eiginlega ekkert eftir því. Sem betur fer eru alltaf samviskusamir nemendur í hverjum hóp sem fylgjast með í tímum og taka eftir því sem fram fer. Amma mín var jarðsett síðasta föstudag og svo var réttað á laugardaginn. Ég hef því verið fyrir austan frá því á fimmtudaginn eftir kistulagninguna. Netið þar er svo hrikalega hægvirkt að ég nenni ekki að eyða mínum dýrmæta tíma í sveitinni í að bíða eftir því.

Nú er ég að ná áttum og reyna að vinna upp þá vinnu sem tapaðist, eða öllu heldur var ýtt til hliðar, vegna ömmu minnar. Þessa viku sem ég eyddi á spítalanum hjá henni ömmu minni og fjölskyldu fæ ég aldrei aftur og er ég þakklát að hafa verið hjá henni síðustu daga hennar hérna megin móðunnar. Verkefni og próf má aftur á móti vinna upp seinna.

 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim