nokkuð samt horf
já hversdagslífið er að komast í fastar skorður hjá okkur eftir miklar sviptingar undanfarið. Takk kærlega fyrir allar kveðjurnar. Nú er maður bara að vinna að því að fræða unglingana um enskt mál og reyna að fá þá til að tjá sig á þeirri tungu. Þó að mín bíði dágóður bunki af verkefnum og "að-gera-listi" yfir þá hluti sem hafa verið trassaðir þá ákvað ég að gefa mér tíma til að rita hér inn nokkur orð.
Ég skrapp í apótek í gær og keypti tvær hækjur. Aðdragandinn að þeim kaupum var sá að Kalli var varla að nenna að fara í fótbolta á fimmtudagskvöldið og ég vildi helst bara hafa hann heima, en hann ákvað að drífa sig af stað og kom heim klukkutíma síðar hoppandi á öðrum fætinum. Karlinn hafði misstigið sig og var ökklinn orðinn tvöfaldur að ummáli. Hann lá heima í gær (með fótinn upp í loft) og til að hann gæti nú komist ferða sinna án þess að þurfa að hoppa þá reddaði ég honum hækjum.
Í gær fór ég einnig í Leiruna og keppti þar í golfmóti félags framhaldsskólakennara. Þar tókst mér ekki að ná í vinning (nema bara það sem var dregið úr skorkortunum, en það voru svo margir aukavinningar að allir fengu eitthvað), en mér tókst þó að næla mér í 32 punkta og skv. golf.is lækkaði forgjöfin um 1,1, ekki alslæmt það þar sem ég hef lítið sem ekkert spilað í sumar.
Í kvöld er svo stefnan tekin í brúðkaup frænda hans Kalla. Alltaf gaman að fara í brúðkaup.
Vonandi eigið þið góða helgi framundan...
þar til næst...
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim