þriðjudagur, september 28, 2010

Bookmark and Share

Góðar minningar

Ég er svo ótrúlega heppin að eiga fullt af góðum minningum af ömmu minni. Mér hefur oft verið hugsað til hennar, sérstaklega síðustu mánuði. Ég rakst á ljóð sem ég samdi fyrir þó nokkru síðan þegar ég var að hugsa um ömmu, hvernig hún var í gamla daga. Það var á samanbrotnum miða í snyrtitöskunni minni.

Svo falleg kona og góð,
full af orku og eldmóð.
Oftast í eldhúsinu stóð
og borðið af kræsingum hlóð.

Svo brosmild, hlý og fín,
hún annaðist börnin sín.
Með henni var glens og grín,
svona var amma mín.

Ég man ekki eftir því að amma hafi skammað mig, eða okkur krakkana. Hún lét okkur vissulega vita ef við vorum að gera eitthvað sem við áttum ekki að vera að gera, en hún hlýtur þá að hafa gert það án þess að hækka röddina.
Sérstaklega man ég eftir einum degi, þegar ég hafði verið hjá tannlækni á Klaustri (þessum sem deyfði mann alltaf og boraði...algjör fantur) og pabbi setti mig út hjá ömmu og afa. Ég fór inn og þá var amma eitthvað að bauka í eldhúsinu og afi lá á dívaninum í eldhúsinu með gömlu gufuna í botni. Svo fórum við amma inn í útskot, ég, ennþá dofin í munninum, lagðist á dívaninn sem var þar og hún fór að strauja með strauvélinni (ég finn ennþá lyktina við tilhugsunina). Ég sofnaði við hljóðið í vélinni og vaknaði svo skömmu síðar, kolrugluð í hausnum og fór að leita að dofanum, skreið eftir gólfinu í útskotinu og klappaði á gólfið, því mér fannst eins og dofinn gæti verið undir teppinu. Svo áttaði ég mig á því hvað ég var að gera og fannst ég frekar kjánaleg. Amma sagði ekki neitt og gaf mér bara nýbakaðar kleinur og mjólk.
Svo fórum við ósjaldan með henni í sund á Klaustri á sumrin. Iðulega var stoppað í sjoppunni á leiðinni heim og hún keypti handa okkur ís úr vél. Etv. þurfti hún að fylla á nammibirgðirnar sínar í veskinu; kóngabrjóstsykur, bismark eða fylltur brjóstsykur (sem var í uppáhaldi hjá mér, því súkkulaðið var eins og að fá bónus þegar maður var búinn að sjúga brjóstsykurinn upp til agna). Amma var líka ótrúlega þolinmóð við okkur, krakkaormana. Hvað við máttum gramsa og tæta í skápunum hennar þegar við vorum að leika okkur. Mér fannst ég alltaf hafa komist í fjársjóð þegar við komumst í skápana og skúffurnar fullar af allskonar dýrgripum eins og tölum, nælum og skarti. Svo fengum við að klæða okkur upp í kjólana hennar, skóna og sveifla veskjunum hennar.
Það eru óteljandi minningar sem koma í hugann þegar ég lít til baka. En ég er svo þakklát að hafa fengið að alast upp með ömmu og afa á næsta leiti. Það var t.d. mjög hentugt að geta hringt í ömmu og spurt hvað var í matinn hjá henni þegar mamma ætlaði að elda eitthvað 'vont' eins og hjörtu og nýru eða eitthvað þess háttar. Oft fór maður þá 'yfir' að borða :D
Ég á eftir að sakna ömmu mikið, en ég veit að nú er hún komin til afa þar sem þau geta fylgst með vitleysunni í okkur hinum.

 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim