þriðjudagur, júní 08, 2004

Bookmark and Share
Það er nú ekki mikið sem er að gerast hjá mér þessa dagana. Nema hvað að ég fór í dagsferð í dýragarð, helli og San Antonio á laugardaginn. Við vorum átta sem fórum saman í dýragarðinn á laugardagsmorguninn. Það var bara rosa gaman. Maður fær fóður sem maður getur gefið dýrunum. Þetta virkar þannig að maður keyrir í gegnum smá svæði þarna og framhjá fullt af dýrum. Dýrunum er gefið að borða meðfram veginum, þannig að þau hanga þar meira og minna. Maður má ekki fara úr bílnum, enda er þetta 'safari'. Við semsagt keyrðum með opna glugga og gáfum dýrunum grasköggla. Við sáum brjálaða strúta, emúa, zebrahesta, elg, hreindýr, dýr með stór og snúin horn (æ, ég man ekkert hvað þetta allt heitir), buffaló...þessi dýr voru laus við veginn og sum komu alveg upp að bílnum og reyndu að stinga hausnum inn...svaka stuð. Sum dýranna voru mjög ágeng og greinilega vön að fólk gefi þeim fóður, strútarnir voru barasta klikkaðir, enda þorði maður ekki annað en að loka gluggunum þegar maður fór framhjá þeim, annars hefðu þeir stungið sínum langa og ljóta haus inn í bílinn og étið það sem þeir kæmu í gogginn. Svo voru nashyrningar, jagúar og gíraffar í afgirtum svæðum við veginn...frekar kúl.

Í dýragarðinum var svona 'visitors' center' þar sem maður gat keypt minjagripi, mat og farið á WC. Þar fyrir utan voru líka fullt af dýrum: apar og páfagaukar í búri, einhvers konar kengúrur, og einhver dýr sem voru eins og afkvæmi kanínu og hunds (og er víst stærsta nagdýr í heimi, man bara ekki hvað það heitir). Þarna var líka 'petting zoo', þ.e. geitur í girðingu þar sem maður gat farið innfyrir og gefið þeim fóður og klappað þeim...gaman fyrir litlu börnin....og okkur. Við lékum okkur við litlu kiðlingana í smá stund, þvoðum okkur um hendurnar og borðuðum svo nestið okkar, enda komið hádegi. Eftir að hafa borðað nestið var förinni heitið aðeins neðar á veginn, þar sem hægt er að fara og skoða hella. Við fórum í einn túr í gegnum helli, sem var frekar flott, hann var aðeins lýstur upp og þar var fullt af dropasteinum og skemmtilegum myndunum í steininum.

Eftir að hellaskoðunina fórum við til San Antonio og á riverwalkið þar. Mjög skemmtilegt svæði. Við löbbuðum um þar, fengum okkur kvöldmat og héldum svo heimileiðis. Ég var komin heim um hálf ellefu eftir að hafa verið á ferðinni síðan klukkan sjö um morguninn. Ákaflega langur og skemmtilegur dagur.

Ég er í skólanum frá 8:30 til 11:30 alla daga, og í kúrs sem er kenndur í gegnum netið. Þannig að ég er meira og minna að dunda mér við lærdóminn á daginn.

Af Kalla er það að frétta að hann er bara nokkuð ánægður í vinnunni og þarf helst að vinna til 26. ágúst sem gefur okkur ekkert allt of mikinn tíma til að keyra til bara þar sem skólinn byrjar 31. Hann fór og spilaði körfubolta í nokkra klukkutíma á laugardaginn, þannig að ég vona að honum leiðist ekkert allt of mikið. Hann er algjör letibloggari og ætti að vera að skrifa þetta sjálfur.

 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim