sunnudagur, júní 01, 2008

Bookmark and Share

nóg að gera


Það er sko búið að vera nóg að gera og ég í fríinu mínu!

Ég hef aðeins þurft að sinna vinnunni minn, binda nokkra lausa hnúta eftir nýliðið skólaár. Síðustu helgi var afmæli hjá Huldu Birnu (stutt stopp þar reyndar) á föstudagskvöldið og útskrift hjá Hlyni, tvíbbunum og frænku hans Kalla á laugardeginum (tvær veislur), að ógleymdu "Júróvisjón". Ég hef fengið það mikilvæga hlutverk í hendur að taka á móti tilboðum frá ræstingafyrirtækjum til að þrífa sameignina og þar fór töluverður tími í að bíða eftir fólki sem lét ekki sjá sig og þó að ég sé búin að hringja aftur og nota óánægju-röddina mína hefur ekki enn sést til þeirra...ætli þeir vilji nokkuð þrífa hjá mér!

Við hjónin vorum bara nokkuð dugleg í golfinu í vikunni, fórum nokkrum sinnum í bása og spiluðum Grafarkotsvöllinn. Ég fór litla völlinn á Korpunni og við fórum stóra völlinn á föstudagskvöldið (í grenjandi rigningu seinni níu) og svo aftur fyrir átta í gærmorgun. Ég afrekaði það að lækka forgjöfina mína um 0,5...ekki svo slæmt miðað við að þetta eru fyrstu hringirnir sem við spilum frá því í fyrrasumar.

Flottu frænkurnar (a.k.a. trunturnar) komu saman í gærkvöldi og við spiluðum keilu, gerðum okkur fínar í Stórakrikanum og fórum svo út að borða á DOMO. Maturinn var fínn en þjónustan heldur hæg. Það er allt í lagi að bíða svolítið þegar maður er í svona góðum félagsskap. Við vorum ekki komin út af veitingastaðnum fyrr en rétt eftir miðnætti. Þá var förinni heitið á Sólon, þar sem við sátum í smá stund. Við Linda fórum heim rúmlega eitt og þá var nú ekki margt um manninn á staðnum. Ég er svakalega lítill djammari í mér. Finnst skemmtilegast að vera í heimahúsi þar sem tónlistin er ekki ærandi techno og þ.a.l. vonlaust að eiga samræður með nokkrum án þess að missa röddina. Við Linda fengum þá snilldar hugmynd á leiðinni heim að opna skemmtistað sem heitir 'Original' og spilar góð lög í upprunalegri útgáfu, ekki mixuð þar til þau eru nánast óþekkjanleg.

 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim