sunnudagur, desember 07, 2008

Bookmark and Share

svo myndó


Jú, ég er sko búin að baka sortir á aðventunni...og það þrjár.
Við Linda klúðruðum saman nokkrum sörum á fimmtudaginn, á sama tíma og ég kveikti í grillinu og lambalærinu sem lá þar í makindum og varð skyndilega eldsteikt (þetta gerðist ca. mínútu eftir að Linda spurði mig hvort ekki þyrfti að fylgjast með grillinu og ég svaraði, "neinei, bara tímanum til að snúa því"). En blessað lambið hafði verið nokkrar mínútur á grillinu. Ég fann brunalykt og hentist út í loftköstum og heljastökkum og tókst að slökkva eldinn. Ég held að ég láti Kalla bara sjá um grillið áfram, hann er svo helvíti góður grillari.

En þetta blogg átti hvorki að vera um lambalæri né Kalla...það átti að vera um smákökur.Sörurnar bragðast rosalega vel og gerði tengdafjölskyldan þeim góð skil í dag þegar þau komu í aðventukaffi.

Við hjónin gáfum skít í kreppuna og fjárfestum í borðstofustólum og borði (sem kemur smákökum ekkert við...ennþá). Borðið fengum við í þeirri snilldarverslun IKEA og setti elskulegi maðurinn minn (sem þetta blogg átti ekki endilega að vera um, en hvernig er annað hægt en að tala um hann þar sem hann er svo elskulegur) það saman í gær á meðan ég skellti í tvær sortir; vanilluhringi (því engin eru jól án vanilluhringja) og engiferkökur (sem eru dásamlega góðar með ískaldri mjólk), en uppskriftirnar fékk ég hjá ástkærri móður minni. Að sjálfsögðu var ég nánast í beinu símasambandi við hana á meðan á myndarskapnum stóð, því mér var það mikið í mun að kökurnar brögðuðust eins og hennar kökur, sem ég held bara svei mér þá að hafi verið raunin. Ég hafði líka ætlað mér að skella í marengstoppa með lakkrískurli, en var svona hálfpartinn að gugna á því (þó að ég sé ógeðslega góð að baka marengs)...æ við sjáum til, ég hef svosem nægan tíma, verandi kennaragrey sem er búið að fara yfir öll prófin sín.

Þetta var færsla um myndarskap minn á aðventunni...ég get ekki lofað áframhaldandi myndarskap í framtíðinni (hmmm...en ekki áframhaldandi í fortíðinni?)

 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim