mánudagur, desember 12, 2011

Bookmark and Share
HAH...ég var búin að gleyma að ég hefði verið með bloggsíðu!

 

0 Ummæli

þriðjudagur, september 28, 2010

Bookmark and Share

Góðar minningar

Ég er svo ótrúlega heppin að eiga fullt af góðum minningum af ömmu minni. Mér hefur oft verið hugsað til hennar, sérstaklega síðustu mánuði. Ég rakst á ljóð sem ég samdi fyrir þó nokkru síðan þegar ég var að hugsa um ömmu, hvernig hún var í gamla daga. Það var á samanbrotnum miða í snyrtitöskunni minni.

Svo falleg kona og góð,
full af orku og eldmóð.
Oftast í eldhúsinu stóð
og borðið af kræsingum hlóð.

Svo brosmild, hlý og fín,
hún annaðist börnin sín.
Með henni var glens og grín,
svona var amma mín.

Ég man ekki eftir því að amma hafi skammað mig, eða okkur krakkana. Hún lét okkur vissulega vita ef við vorum að gera eitthvað sem við áttum ekki að vera að gera, en hún hlýtur þá að hafa gert það án þess að hækka röddina.
Sérstaklega man ég eftir einum degi, þegar ég hafði verið hjá tannlækni á Klaustri (þessum sem deyfði mann alltaf og boraði...algjör fantur) og pabbi setti mig út hjá ömmu og afa. Ég fór inn og þá var amma eitthvað að bauka í eldhúsinu og afi lá á dívaninum í eldhúsinu með gömlu gufuna í botni. Svo fórum við amma inn í útskot, ég, ennþá dofin í munninum, lagðist á dívaninn sem var þar og hún fór að strauja með strauvélinni (ég finn ennþá lyktina við tilhugsunina). Ég sofnaði við hljóðið í vélinni og vaknaði svo skömmu síðar, kolrugluð í hausnum og fór að leita að dofanum, skreið eftir gólfinu í útskotinu og klappaði á gólfið, því mér fannst eins og dofinn gæti verið undir teppinu. Svo áttaði ég mig á því hvað ég var að gera og fannst ég frekar kjánaleg. Amma sagði ekki neitt og gaf mér bara nýbakaðar kleinur og mjólk.
Svo fórum við ósjaldan með henni í sund á Klaustri á sumrin. Iðulega var stoppað í sjoppunni á leiðinni heim og hún keypti handa okkur ís úr vél. Etv. þurfti hún að fylla á nammibirgðirnar sínar í veskinu; kóngabrjóstsykur, bismark eða fylltur brjóstsykur (sem var í uppáhaldi hjá mér, því súkkulaðið var eins og að fá bónus þegar maður var búinn að sjúga brjóstsykurinn upp til agna). Amma var líka ótrúlega þolinmóð við okkur, krakkaormana. Hvað við máttum gramsa og tæta í skápunum hennar þegar við vorum að leika okkur. Mér fannst ég alltaf hafa komist í fjársjóð þegar við komumst í skápana og skúffurnar fullar af allskonar dýrgripum eins og tölum, nælum og skarti. Svo fengum við að klæða okkur upp í kjólana hennar, skóna og sveifla veskjunum hennar.
Það eru óteljandi minningar sem koma í hugann þegar ég lít til baka. En ég er svo þakklát að hafa fengið að alast upp með ömmu og afa á næsta leiti. Það var t.d. mjög hentugt að geta hringt í ömmu og spurt hvað var í matinn hjá henni þegar mamma ætlaði að elda eitthvað 'vont' eins og hjörtu og nýru eða eitthvað þess háttar. Oft fór maður þá 'yfir' að borða :D
Ég á eftir að sakna ömmu mikið, en ég veit að nú er hún komin til afa þar sem þau geta fylgst með vitleysunni í okkur hinum.

 

0 Ummæli

þriðjudagur, apríl 13, 2010

Bookmark and Share

OMG


Ég held að ég kunni ekki að blogga lengur. það er ansi langt síðan síðast...þá var ég ólétt og þó að ég sé búin að eignast barnið þá er ég ekki orðin létt, hvað er málið með það?
Það hefur ýmislegt gerst síðan síðast: það komu jól og áramót, barn, þorrablót, eldgos og páskar.

Ég ákvað að blogga smávegis í tilefni dagsins. Ég hef verið í mömmuleikfimi í World Class í Laugum undanfarnar 6 vikur og líkaði það rosa vel. Frábær kennari og alles. En nú er því námskeiði lokið og ákvað ég að feta í spor tveggja átrúnaðargoða minna og kaupa mér kort í WC (sem stendur fyrir World Class en ekki klósett) og stunda þar líkamsrækt a.m.k (sem er einnig upphafsstafir í nafni sonar míns) tvisvar í viku. Í dag var fyrsti tíminn minn í stöðvaþjálfun og þar fer sadisti með yfirumsjón. Jedúddamía hvað drengurinn minn er þungur núna, því áhersla tímans var á efri hluta líkamans...lóð, armbeygjur og réttur, meiri lóð, smá hopp (sem ég bara gat eiginlega ekki gert vegna mjólkurfulls barms, þó svo að Agnari Má muni eflaust þykja mjólkurhristingur góður ;) o.s.frv. En það er ekki aðalástæðan fyrir þessu bloggi...ástæðan er sú að ég setti drenginn minn í pössun í fyrsta skipti og það gekk bara vel. Hann svaf nánast allan tímann, var nývaknaður þegar ég kom og sótti hann. Þá sat hann sæll og glaður í fangi einnar konunnar í gæslunni. Merkilegum áfanga náð.

Ég verð nú að segja nokkur orð um átrúnaðargoðin mín, þær Sólu og Huldu Birnu. Önnur býr í Ártúnsholtinu og hin í Kópavoginum. Þær labba í klukkutíma eða svo með yngstu krílin sín í vagni (þær eru sko með sinnhvorn vagninn) í Laugar fara þar í sadistastöðvaþjálfun og labba svo til baka. Kannski mun ég einhvern daginn hafa það í mér að verða þeim samferða, allavega hluta leiðarinnar, því ég mun seint labba úr Mosó til að fara í Laugar.

 

2 Ummæli

sunnudagur, ágúst 09, 2009

Bookmark and Share

það liggur við...


að fésið sé búið að ganga frá blogginu mínu!
Kannski lifnar það við aftur í vetur þegar maður á að vera að fara yfir verkefni eða eitthvað slíkt.
Síðustu fimm vikur hafa heldur betur verið annasamar. Við höfum spilað þó nokkra golfhringi í sumar og er ég mjög ánægð með það. Við fórum í 12 vikna sónar í lok júní og svo brúðkaup. Síðan fórum við í sumarbústað í viku í byrjun júlí og höfum varla komið heim fyrr en nú, nema kannski rétt smá 'pit-stop' til að endurpakka í töskurnar. Eftir bústaðaferðina góðu fórum við heim í smá tíma og tygjuðum okkur í tveggja nátta útilegu á Suðurlandið með Herði og Önnu. Eftir þá útilegu var aftur haldið heim til að þvo þvott og setja aftur niður í töskur því við héldum til Eyja rúmri viku fyrir Þjóðhátíð...bara svona til að athuga hvernig gengi að undirbúa og spila smá golf í góðum félagsskap. Eftir Eyjaferðina stoppuðum við heima í nokkra klukkutíma, fórum í 16 vikna mæðraskoðun og sváfum eina nótt áður en við fórum í sveitina í nokkra daga. Síðan eyddum við verslunarmannahelginni með tengdafjölskyldunni í Borgarfirðinum og komum heim síðastliðinn miðvikudag. Á fimmtudagsmorguninn var aftur haldið af stað, en nú var förinni heitið á Norðurlandið með Önnu Láru og Fanneyju. Fimmtudeginum eyddum við á Akureyri, en gistum á Stórutjörnum. Föstudagurinn fór í skoðunartúra og golf við Mývatn og aftur gist á Stórutjörnum. Á laugardagsmorguninn fórum við í Bakaríið við Brúna á Akureyri og fórum með góðgætið á tjaldsvæðið við Hrafnagilsskóla, en þar höfðu mamma og pabbi gist um nóttina. Við kíktum á handverkssýninguna í Hrafnagili og héldum svo til Dalvíkur á fiskidaginn mikla, þvílíkur og annar eins fjöldi af fólki...Eftir að hafa gúffað í sig 1000 bragða fiskisúpu frá Friðriki V var haldið heim á leið. Við stoppuðum á Blönduósi og borðuðum kvöldmat á Pottinum og Pönnunni. Eg hélt fiskisúpuþemanu áfram og át yfir mig af dýrindis humarsúpu. Nú erum við komin heim, enda vinnuvika framundan... hver veit nema við förum eitthvað næstu helgi. Svo eru það náttúrulega réttirnar í september.
Þetta er búið að vera frábært sumar og svei mér þá ef maður er ekki barasta farinn að hlakka til að komast í vinnuna og hitta samstarfsfólkið og nemendurna aftur.

 

3 Ummæli

sunnudagur, júní 21, 2009

Bookmark and Share

hefur fésbókin drepið bloggið


rétt eins og myndbandið drap útvarpsstjörnuna?
Maður spyr sig, því almennt séð hefur bloggleti heltekið bloggrúntinn minn. Sóla er reyndar að standa sig ágætlega. Ég er að ganga í gegnum hrikalega leti í bloggheimum og ætti kannski að fara að taka góða frændann minn til fyrirmyndar og henda inn stöku mynd til að friða bloggsamviskuna.

 

0 Ummæli

þriðjudagur, júní 09, 2009

Bookmark and Share

Maður ætti kannski að hætta þessu fikti...


ég var eitthvað að fikta í útliti síðunnar og allir linkarnir duttu út. Þegar það gerðist hætti ég eiginlega að nenna að fara inn á síðuna og enginn var bloggrúnturinn. Kannski maður taki upp þráðinn þar sem frá var horfið og haldi áfram að fara stöku bloggrúnt. Ágætt að hvíla sig á Facebook öðru hvoru. Mikið er nú gott að vera búin að fá gamla útlitið á síðunni aftur!!!

 

0 Ummæli

fimmtudagur, maí 21, 2009

Bookmark and Share

það er naumast...


þær fjölga sér eins og kanínur, þessar kanínur...ég sá tvo litla kanínuunga hér fyrir utan áðan. Þeir eru ferlega sætir, en ég er ekkert viss um að ég vilji hafa hér allt morandi í kanínum...

 

1 Ummæli