miðvikudagur, september 26, 2007

Bookmark and Share

MÖMMUR


4 ára = Mamma mín getur allt.
8 ára = Mamma mín veit heilmikið.
12 ára = Mamma mín skilur ekki neitt.
14 ára = Að sjálfsögðu veit mamma mín ekki neitt um þetta frekar en annað.
16 ára = Mamma mín er ótrúlega gamaldags.
18 ára = Mamma mín er orðin svo gömul að hún veit ekkert um hvað lífið snýst í raun og veru.
25 ára = Mamma gæti nú vitað hvað ég ætti að gera.......
35 ára = Við skulum tala við mömmu áður en við ákveðum hvað við gerum.
45 ára = Hvað ætli mömmu finnist um þetta?
65 ára = Ég vildi óska að ég gæti rætt um þetta við mömmu............

Þær eru sko ómissandi þessar elskur

 

0 Ummæli

mánudagur, september 24, 2007

Bookmark and Share

hmmm.....


ég er nú meiri letibloggarinn...og ég geri mér alveg grein fyrir því. Ég bara nenni ekki að blogga, mér finnst ég ekki hafa neitt að segja. Fæst orð hafa minnsta ábyrgð!

Það er annars ósköp lítið að frétta. Ég er enn að kenna ensku í Borgó, Kalli er enn að vinna hjá Landsbankanum, við búum enn í litlu íbúðinni okkar í bláa húsinu. Reyndar erum við búin að fá nýjan bíl, en erum ekki búin að ákveða okkur hvort við ætlum að eiga hann eða selja. Við fórum austur um helgina þar sem við grunnuðum efni í þakskyggnið á húsinu hjá mömmu og pabba og fórum á músaveiðar. Utan þess lágum við í leti og horfðum á sjónvarpið...alveg eins og það á að vera.

Dagný dúlla átti afmæli um helgina og varð hvorki meira né minna en 17 ára...svakalega er hún orðin gömul. Með þessu áframhaldi nær hún mér...

until next time...
adios

 

0 Ummæli

laugardagur, september 15, 2007

Bookmark and Share

nokkuð samt horf


já hversdagslífið er að komast í fastar skorður hjá okkur eftir miklar sviptingar undanfarið. Takk kærlega fyrir allar kveðjurnar. Nú er maður bara að vinna að því að fræða unglingana um enskt mál og reyna að fá þá til að tjá sig á þeirri tungu. Þó að mín bíði dágóður bunki af verkefnum og "að-gera-listi" yfir þá hluti sem hafa verið trassaðir þá ákvað ég að gefa mér tíma til að rita hér inn nokkur orð.

Ég skrapp í apótek í gær og keypti tvær hækjur. Aðdragandinn að þeim kaupum var sá að Kalli var varla að nenna að fara í fótbolta á fimmtudagskvöldið og ég vildi helst bara hafa hann heima, en hann ákvað að drífa sig af stað og kom heim klukkutíma síðar hoppandi á öðrum fætinum. Karlinn hafði misstigið sig og var ökklinn orðinn tvöfaldur að ummáli. Hann lá heima í gær (með fótinn upp í loft) og til að hann gæti nú komist ferða sinna án þess að þurfa að hoppa þá reddaði ég honum hækjum.

Í gær fór ég einnig í Leiruna og keppti þar í golfmóti félags framhaldsskólakennara. Þar tókst mér ekki að ná í vinning (nema bara það sem var dregið úr skorkortunum, en það voru svo margir aukavinningar að allir fengu eitthvað), en mér tókst þó að næla mér í 32 punkta og skv. golf.is lækkaði forgjöfin um 1,1, ekki alslæmt það þar sem ég hef lítið sem ekkert spilað í sumar.

Í kvöld er svo stefnan tekin í brúðkaup frænda hans Kalla. Alltaf gaman að fara í brúðkaup.

Vonandi eigið þið góða helgi framundan...
þar til næst...

 

0 Ummæli

mánudagur, september 10, 2007

Bookmark and Share

Andlát


Ég hef nokkrum sinnum loggað mig inn á bloggsíðuna en einhvern veginn ekki fengið andann yfir mig, hafði enga löngun til að blogga, semsagt andlát.

Svava amma fékk blóðtappa í höfuðið fyrir tveimur vikum síðan og lá á spítala í viku, fyrst með smá meðvitund og svo engri...við vöktum yfir henni í viku en hún dó aðfaranótt sunnudagsins 2. september, andlát. Þetta hefur verið svakalega erfiður tími, enda gerðist þetta allt mjög snöggt. Ég er sjálf búin að vera í hálfgerðu móki síðastliðnar tvær vikur vegna þessa. Þurfti að spyrja nemendurna mína hvað ég hafi nú verið að kenna þeim, því ég mundi eiginlega ekkert eftir því. Sem betur fer eru alltaf samviskusamir nemendur í hverjum hóp sem fylgjast með í tímum og taka eftir því sem fram fer. Amma mín var jarðsett síðasta föstudag og svo var réttað á laugardaginn. Ég hef því verið fyrir austan frá því á fimmtudaginn eftir kistulagninguna. Netið þar er svo hrikalega hægvirkt að ég nenni ekki að eyða mínum dýrmæta tíma í sveitinni í að bíða eftir því.

Nú er ég að ná áttum og reyna að vinna upp þá vinnu sem tapaðist, eða öllu heldur var ýtt til hliðar, vegna ömmu minnar. Þessa viku sem ég eyddi á spítalanum hjá henni ömmu minni og fjölskyldu fæ ég aldrei aftur og er ég þakklát að hafa verið hjá henni síðustu daga hennar hérna megin móðunnar. Verkefni og próf má aftur á móti vinna upp seinna.

 

0 Ummæli