miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Bookmark and Share

einmitt það...


Ég verð nú að viðurkenna að ég hef ekki gert mikið af því að hreyfa mig mikið síðan síðast. Þó geng ég yfirleitt í vinnuna og heim, sem tekur mig ca 40 mínútur á dag, það er þó eitthvað. Svo er aldrei að vita nema maður fái sér göngutúr þann 9.september. Allavega verður eitthvað tekið á því þegar dregið verður í dilka.

Annars hef ég ósköp lítið að segja núna, lífið gengur út á að sofa, næra sig og vinna, auk þess að liggja aðeins í leti yfir imbanum á kvöldin.

 

0 Ummæli

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Bookmark and Share

allt á fullt...


nú er skólaárið hafið og allt komið á fullt. Mér tókst að skipuleggja mig svo vel í dag að ég tók enga vinnu með mér heim, meira að segja gerði ég plan fyrir næstu viku líka. Rosalega stolt af því. Fyrir utan það að vera byrjuð að vinna fyrir alvöru aftur þá er nú ósköp lítið að frétta héðan úr bláa húsinu. Við ætlum okkur þó að fara austur um helgina þar sem mínir elskulegu foreldrar munu láta okkur vinna fyrir matnum, sem er bara hið besta mál. Ég er ofur ánægð með töfluna mína þessa önnina, kennslan hjá mér byrjar ekki fyrr en 11:20 á mánudögum og ég er bara til 14:40 á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum, auk þess sem ég hef 3 góðar eyður í töflunni í hverri viku sem gerir mér kleift að undirbúa mig þannig að ég þarf kannski síður að vinna frameftir eða taka vinnuna með mér heim sem ég á veg og vanda til að gera. Mikið rosalega var þetta nú löng setning.

 

0 Ummæli

laugardagur, ágúst 19, 2006

Bookmark and Share

batnandi manni er best að lifa


eftir síðustu bloggfærslu dröslaði ég mér í hlaupaskóna og fór út að hlaupa! Je minn einasti hvað ég er í lélegu formi! Þetta er þá bara enn eitt verkefnið sem verður leyst í vetur og reynt að halda út það sem eftir er því núverandi ástand er frekar súrt að lifa við. Í raun á maður ekki að láta svona lagað gerast. Því segi ég enn og aftur: Batnandi manni er best að lifa!

 

0 Ummæli

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Bookmark and Share

Þakklæti


Ég er afar þakklát fyrir þá dyggu lesendur sem með þrautseigju sinni gáfust ekki upp og héldu áfram að líta við á síðunni minni þrátt fyrir brotthvarf mitt(leti) í þónokkurn tíma. Sérstaklega er ég þakklát fyrir þá sem hafa fyrir því að skrifa nokkur orð við færslurnar.

Nú er vinnan hafin og undirbúningur fyrir komandi önn í algleymingi. Stundatöflur eldri nemenda voru afhentar í dag og á morgun liggja fyrir fundahöld og önnur undirbúningsvinna. Mér fannst tilfinningin bara nokkuð góð að koma upp í Borgó og dunda sér við skrifborðið sitt og skoða hópalistana. Ég er sátt. Það eina sem vantar upp á í líf mitt er hreyfing. Það er nú einfalt að bæta úr því, en mjög erfitt að koma sér af stað. Ég verð að gera eitthvað í þessu því ef fram heldur sem horfir þá verð ég meiri hlussa innan skamms en nokkurn tímann fyrr (ef það hefur ekki þegar gerst).

 

0 Ummæli

miðvikudagur, ágúst 16, 2006

Bookmark and Share

munnræpa


við fórum semsagt á landsleikinn í gær, allt í lagi leikur svosem og stemmningin fín á íslenskan mælikvarða. Eitt sem angraði mig í gær var gaurinn sem sat fyrir aftan mig. Hann talaði út í eitt, allan leikinn, hátt og snjallt. Það fer ekkert í taugarnar á mér þegar fólk er að hrópa hvatningarorð til liðsins síns og syngja og tralla, gott mál, en þessi gaur gerði lítið annað en að lýsa leiknum og tuða: "nei, hann setti boltann útaf, af hverju gerði hann það?" án þess þó að vera að spyrja einhvern sérstakan. "nauj, þetta var naumt mar' hann varði hann." Ef ég þarf lélega leiklýsingu þá horfi ég á sjónvarpið. Þetta er næstum jafn pirrandi og að lenda fyrir framan ofvirkan krakka í flugvél sem sparkar í sífellu í sætisbakið. Mig langaði mest að snúa mér við og troða húfunni hans upp í hann, en þar sem ég er vel upp alin þá lét ég það vera.

Talandi um lélegar lýsingar í sjónvarpi...je minn eini. Við vorum að horfa á Sýn um daginn, nánar tiltekið útsendingu frá pókermóti í Bandaríkjunum. Maðurinn sem var að lýsa mótinu var agalegur. Þetta var ekki í beinni útsendingu og viðtölin við gaurana sem duttu úr spilinu var textað. Af hverju var ekki hægt að texta hitt líka. Maðurinn var illa talandi og gerði ekki annað en að sjúga upp í nefið. Það var svo augljóst að hann var að þýða það sem amerísku þulirnir voru að segja (því stundum heyrði maður hvað þeir sögðu) og hann gerði það afar illa. Ég fékk bara illt í málvitundina við að hlusta á þetta og var að því komin að senda kvörtunarbréf til Sýnar...kannski geri ég það bara.

Kvarta meira síðar :-)

 

0 Ummæli

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Bookmark and Share

vanda skal valið...


Ég stóð frammi fyrir erfiðu vali: blogga eða vaska upp....blogga eða vaska upp...
ég skolaði leirtauið og settist svo við tölvuna.
Ég var að lesa Tiger blaðið (vörulistann úr Tiger búðunum) og það er bara hrein og tær snilld sem er skrifað við sumar myndirnar, ég stend mig að því að flissa við lestur þessa blaðs. Sem dæmi má nefna texta við mynd af kæligrímu, svona gríma sem maður setur í kælinn og svo yfir augun þegar maður er þreyttur eða eitthvað svoleiðis...við þá mynd stendur: "Ertu með augun á ristunum? Finnst þér þau lafa? Eða eru þau herpt? Finnurðu hrukkurnar hlaðast upp eins og fellingafjöll? Þá gætirðu átt svissneskt heilsuhæli í ísskápnum. Kæligríman fær fjöllin til að fletjast, hrukkurnar til að sléttast, já, eða hisjar augun upp um þig. Fyrir 200 kr másefa sál og líkama." Að detta þetta í hug.
Annars erum við að fara á landsleikinn á eftir, best að fara að tygja sig.
Áfram Ísland.

 

0 Ummæli

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

Bookmark and Share

letidýr


það er ég. Það fer lítið fyrir framtaksseminni hjá mér þessa dagana því ég hef gert mikið af því að liggja í leti með smá pásum. Pásurnar fela kannski í sér smá tiltekt og þvotti, en ekki mikið meira en það. Reyndar skelltum við hjónakornin okkur í golf á föstudaginn og laugardaginn auk þess sem við kíktum í bústað yfir nótt. Er maður ekki búinn að vera of mikið einn með sjálfum sér þegar maður fer að tala við sjálfan sig...upphátt. Ég stóð mig að því í morgun að spjalla við sjálfa mig í eldhúsinu. Maður talar stundum við sig í huganum, en ekki upphátt, er það nokkuð? Annars tók ég mig til í morgun og skrapp einn hring á æfingavellinum við Korpu, enda skemmdi veðrið ekki fyrir. Maður verður bara að njóta góða veðursins hér á landi þegar það lætur loksins sjá sig.

Þá eru Evrópufararnir komnir heim. Þreytt en ánægð eftir fjögurra vikna bíltúr um Evrópu í Fiat húsbíl án loftkælingar. Það verða örugglega ófáar ferðasögurnar sagðar um helgina...því ég ætla að sjálfsögðu að skella mér í sveitina mína austur á Klaustur, en ég hef lítið sem ekkert komist þangað í sumar og því kominn tími til að líta augum þá fögru sveit.

 

0 Ummæli