erum alveg að koma
jæja, þá styttist í heimkomuna hjá okkur. Það hafðist fyrir rest að koma draslinu í gáminn...hann kom á staðinn 3 klukkustundum of seint og við biðum með allt dótið fyrir utan hjá Jóni og Gyðu í 30 stiga hita. Reyndar gátum við farið inn í hús og kælt okkur, en ég er hrædd um að M&M nammið sem við settum í einn kassan sé orðið að einni stórri M&M klessu.
Á laugardeginum lögðum við í'ann í norðurátt. Við enduðum í Denver, Colorado á mánudeginum og hittum þar Tony og Cristin, það er þessi stóri dökkhærði sem var í prógramminu með Kalla. Cristin fór með okkur upp í fjöllin, í 11.990 feta hæð (3655 metrar) og þar sáum við snjó...þetta var alveg frábært umhverfi, yndislega fallegt þarna. Hitastigið var mun þægilegra en í Texas, 20-25 gráður og enginn raki á móti 30-35 gráðum og töluverðum raka...úffpúff. Tony grillaði svo dýrindis steikur handa okkur um kvöldið. Á þriðjudeginum ókum við svo upp til Boulder og Estes Park, mjög skemmtilegir bæir við og í fjöllunum. Við ætluðum að fara í Rocky Mountain National Park, en hann var lokaður vegna snjóa. Um kvöldið fórum við á hafnarboltaleik með Tony og Cristin og fengum okkur svo einn kaldan eftir leikinn. Það var mjög gaman að geta hitt þau áður en við flytjum heim. Við vorum svo komin aftur til College Station á fimmtudaginn, þar sem flutningarnir áttu sér stað daginn eftir.
Már og Fanney fljúga heim á morgun og svo höldum við Kalli í okkar ferðalag á fimmtudagsmorguninn. Stefnan er tekin á Tennessee þar sem við ætlum að reyna að hitta Kurt, einn vin Kalla síðan hann bjó í Tennessee fyrir um 17 árum síðan. Þeir hafa ekkert samband haft síðan þá en Kurt tókst einhvern veginn með hjálp hinnar einstöku tölvutækni að hafa uppi á Má, sem gaf honum upp e-mailið hjá Kalla...spennó, ekki satt. Eftir Tennessee verður ekið rakleiðis til Norfolk, Virginia þaðan sem ísjakinn okkar verður sendur heim á klakann. Síðan ætlum við að leigja bíl og aka upp eftir austurströndinni og enda í Boston, en þaðan fljúgum við 6.júni og verðum komin heim að morgni þess sjöunda. Hlökkum til að sjá ykkur!