miðvikudagur, maí 31, 2006
fimmtudagur, maí 25, 2006
hvenær kemur sumarið?
hlýtur maður að spyrja sig þegar það er frost og ofankoma í lok maí. Það er ekki í lagi með þetta veður!
Ég fór í vorferð í gær með starsfólki Borgó og var það mjög vel heppnuð og skemmtileg ferð. Víð fórum á vesturlandið, borðuðum dagverð að Flesjustöðum, svo heilsuðum við upp á Guðrúnu Ósvífursdóttur og gengum upp Helgafellið (sem er nú reyndar lítið og lágt). Eftir þá göngu var förinni heitið í Hólminn þar sem við röltum aðeins um áður en við fórum um borð í Særúnu sem sigldi með okkur um Breiðafjörðinn innan um eyjarnar. Þar skoðuðum við fuglalífið og sáum meðal annars arnarpar sem hefur verpt í einni eynni í nokkur ár. Þetta var mjög skemmtileg sigling....enda skemmtisigling, þó það hafi verið mjög kalt og snjóaði töluvert á tímabili. Það lygndi um síðir og veðrið var mjög fallegt. Við snæddum málsverð um borð í Særúnu og var það bara aldeilis vel útilátið. Ég borðaði í fyrsta skipti skelfisk beint úr sjónum. Það kom mér satt að segja mjög á óvart hversu bragðgóður hann var þrátt fyrir slepjulegheitin. Ég held bara svei mér þá að ég myndi alveg gera þetta aftur. Ég get bara alveg mælt með svona bátsferð.
föstudagur, maí 19, 2006
finnst ég vera að gleyma einhverju
en ég veit bara ekki hvað það er. Þetta er svo óþægileg tilfinning. Skyldi hún vera rétt? Ætli ég sé að gleyma einhverju??? Það verður þá bara að koma í ljós.
Það virðist vera sem dágóður slatti af ættingjum mínum annað hvort kunni ekki eða nenni ekki að lesa...eða kannski eru þeir líka gleymnir, eins og ég. Það stóð nefnilega á boðskortunum í brúðkaupið að fólk var beðið að láta vita fyrir 15. maí hvort það kæmist í brúðkaupið eða ekki...og þið vitið hvert þetta stefnir...
miðvikudagur, maí 17, 2006
yfirferð lokið
þá er ég búin að fara yfir öll prófin og skrá lokaeinkunnirnar inn...ég var bara nokkuð ánægð með niðurstöðurnar. Á morgun er svo einkunnaafhending og prófasýning, þannig að þetta er bara alveg að verða búið. Önninni lýkur með starfsdögum á mánudag og þriðjudag og svo vorferð starfsfólks á miðvikudaginn....það verður fjör. Eftir það geri ég ráð fyrir að hella mér á fullu í að klára brullups undirbúning og passa Ísabellu Karítas á meðan Linda er í útvarpinu. Það er nóg að gerast!
laugardagur, maí 13, 2006
allt að smella saman
í sambandi við brúðkaupið...enda ekki vanþörf á þar sem það eru bara 4 vikur eftir. Mikið rosalega hefur tíminn liðið hratt. Það eru bara nokkur smáatriði eftir, smáatriði sem skipta samt máli. Ætli maður reyni ekki að gera eitthvað gagnlegt um helgina...er reyndar með stafla af prófum sem á eftir að fara yfir. Talandi um prófin þá lýkur þeim á þriðjudaginn og svo er einkunnaafhending á fimmtudaginn, þannig að þetta fer alveg að verða búið. Önninni lýkur með starfsdögum 22. og 23. maí.
Hlynur og Björk spiluðu og sungu á KissFM í gærmorgun og stóðu sig rosalega vel. Kalli fékk líka þessa fínu afmæliskveðju og söng frá Lindu og Evu í beinni...því miður heyrði hann það ekki, þar sem hann var að koma af fundi í vinnunni, og ég náði ekki að taka það upp.
föstudagur, maí 05, 2006
ætli maður verði ekki að druslast
til að skrifa eitthvað hérna fyrst maður er með tölvu í fanginu...reyndar ekki mína því hún er ennþá lasin og er farin á tölvuspítalann. Ætli ég hafi smitað hana af einhverjum tölvuvírus, því hún gaf upp öndina daginn eftir að ég veiktist?!?
Annars er bara svo lítið að frétta hjá okkur skötuhjúunum. Hjá mér eru prófin byrjuð,og þá er ég ekki að tala um að ég sé að taka próf sjálf heldur leggja þau fyrir og sitja yfir og fylgjast með krakkagreyjunum engjast og kveljast sveitt yfir þessu öllu saman...þeim hefði verið nær að fylgjast betur með í tímum! Ég á reyndar eftir að ganga frá ýmsum lausum endum sem stóð til að gera í síðustu viku, en þar sem tölvugarmurinn virkaði ekki gat ég ekki einu sinni unnið að heiman...frekar fúlt. Skyldi ég eitthvað komast austur í sauðburðinn? Eins og staðan er núna sé ég það ekki gerast næstu dagana allavega. Þarf að sitja yfir prófum á mánudaginn og leggja fyrir eitt á fimmtudaginn...það væri þá ekki nema að skjótast þar á milli...en þar sem ég hef ekki bíl til afnota verður örugglega ekki mikið af því.
Að allt öðru...Linda systir er farin að vinna í útvarpinu. Þau þrjú sem voru í úrslitunum í útvarpsstjörnu Íslands fengu þátt saman á virkum morgnum á milli 7 og 10...hvet ykkur til að hlusta og jafnvel hringja inn og spjalla við þau.
jæja...hef ekki meira að segja í bili...góða helgi!