yndislega sveitin mín
við fórum austur á fimmtudagskvöldið í hálku og snjó, ekki leiðinlegt það. Tunglið skartaði sínu fegursta sem og stjörnurnar. Í sveitinni eru sko engin borgarljós til að eyðileggja eitt það besta útsýni sem maður fær. Föstudeginum var meira og minna eytt við það að þeysast um túnin og hólana á snjósleðunum í frábæru veðri og færð. Það var ískalt, en stillt veður og maður klæðir svoleiðis bara af sér. Laugardagurinn var einnig rosalega góður og fengu sleðarnir sína æfingu þann daginn líka. Svo skall veðrið á og við ákváðum að bíða það af okkur. Þegar við lögðum af stað í bæinn seint á sunnudaginn var snjórinn að mestu farinn og vegirnir meira og minna auðir.
Tannsi var á vappi með syni sínum í leit að önd, sem hann fann ekki, enda sást til hafarnar og vilja endurnar væntanlega síður eyða áramótunum með honum.
Ég vona að veðrið geri okkur kleift að sjá flugelda á lofti í kvöld, en að þeir fjúki ekki bara á haf út og sjáist ekki meir.
Við hjónakornin óskum öllum gleðilegs árs og þökkum fyrir það liðna. Farið varlega með flugeldana.