mánudagur, desember 31, 2007

Bookmark and Share

yndislega sveitin mín


við fórum austur á fimmtudagskvöldið í hálku og snjó, ekki leiðinlegt það. Tunglið skartaði sínu fegursta sem og stjörnurnar. Í sveitinni eru sko engin borgarljós til að eyðileggja eitt það besta útsýni sem maður fær. Föstudeginum var meira og minna eytt við það að þeysast um túnin og hólana á snjósleðunum í frábæru veðri og færð. Það var ískalt, en stillt veður og maður klæðir svoleiðis bara af sér. Laugardagurinn var einnig rosalega góður og fengu sleðarnir sína æfingu þann daginn líka. Svo skall veðrið á og við ákváðum að bíða það af okkur. Þegar við lögðum af stað í bæinn seint á sunnudaginn var snjórinn að mestu farinn og vegirnir meira og minna auðir.
Tannsi var á vappi með syni sínum í leit að önd, sem hann fann ekki, enda sást til hafarnar og vilja endurnar væntanlega síður eyða áramótunum með honum.
Ég vona að veðrið geri okkur kleift að sjá flugelda á lofti í kvöld, en að þeir fjúki ekki bara á haf út og sjáist ekki meir.
Við hjónakornin óskum öllum gleðilegs árs og þökkum fyrir það liðna. Farið varlega með flugeldana.

 

0 Ummæli

þriðjudagur, desember 25, 2007

Bookmark and Share

Gleðileg Jól


Við hjónakornin viljum óska öllum gleðilegra jóla og þökkum jafnframt kærlega fyrir okkur. Vonandi eigið þið friðsæl jól og fjörug áramót.

Það er ekki mjög jólalegt um að litast hjá okkur. Við erum byrjuð að pakka niður fyrir flutningana og því eru pappakassar og dót út um allt. Það angrar mig ekki vitund því ég hlakka mikið til að flytja í nýju stóru íbúðina og fá smá víðáttubrjálæði áður en hún fyllist af dóti og drasli, en vonandi gerist það ekki fljótt.

Við áttum mjög huggulegt aðfangadagskvöld hjá tengdó í Arnartanganum. Það var ákaflega gaman að fylgjast með krökkunum skoða og opna pakkana sína, þau voru alveg kostuleg. Í kvöld munum við svo gæða okkur á hangikjötinu. Ætli við kíkjum svo ekki í sveitina um helgina, vonandi verður snjór þannig að við getum farið á sleða.

þar til næst...hafið það gott!

 

0 Ummæli

föstudagur, desember 21, 2007

Bookmark and Share

ekki lengur


ég er löngu farin af ganginum í skólanum, sbr. síðustu færslu. Ég hef tvisvar sinnum skráð mig inn hér og ætlað að skrifa eitthvað (örugglega eitthvað svakalega sniðugt), en einhvern veginn bara farið að gera eitthvað annað í staðinn og gleymt blogginu.

Í gær voru liðin tvö ár frá því að afi dó, og ég var svosem ekkert að hugsa um það í gær, enda var ég að snúast í hinu og þessu og einhvern vegin ekki með hugann við dagsetninguna. Í nótt var afi alls staðar í draumnum mínum. Ég var (í draumnum) að labba eitthvað um húsið 'hinum megin' (fyrir þá sem ekki skilja þá er 'hinum megin' húsið sem amma og afi bjuggu í í sveitinni) og það var alveg sama hvar ég var, alltaf birtist afi. Ég fór inn í stofu og þá birtist hann sitjandi í sófanum, ég fór inn í útskot og þar var hann, eins inni í eldhúsi. Ég hljóp eitthvað og alltaf birtist hann, svo sagði ég við einhvern (man ekki hvern) að afi væri að ofsækja mig! Mér líður alls ekki illa með þennan draum, enda var afi vænsti kall og það var alltaf gaman að hafa hann hjá sér.

 

0 Ummæli

fimmtudagur, desember 13, 2007

Bookmark and Share

nýr titill


Þessa stundina sit ég á ganginum í Borgarholtsskóla. Það er verið að prófa nemendur í nálægum stofum og mér ber að gæta þess að það myndist ekki kjaftagangur fyrir utan stofurnar þegar nemendurnir fara út. Einnig á ég að sækja kennara þeirra áfanga sem er verið að prófa ef þörf krefur og gæta þess að nemendur svindli ekki ef þeir þurfa að fara úr stofunni á prófatíma, t.d. til að heimsækja náðhúsið. Það góða við að vera gangavörður er að maður getur haft með sér bók eða fartölvuna og unnið...eða leikið sér. Aftur á móti geta þeir kennarar sem eru í yfirsetu í stofunum ekki gert nokkurn skapaðan hlut nema að fylgjast með nemendunum skrifa prófin. Það er góð tilfinning að vera búin að prófa sína áfanga og fara yfir, en einungis eru eftir sjúkrapróf. Þau eru á mánudaginn. Þá verður glens, gleði og gaman, því þá lýkur þessu og maður getur farið að einbeita sér að jólastressinu og pökkun (n.b. ekki pökkum).
Ég veit ekki hvað meira ég get tuðað hér og segi því bara Feliz Navidad og au revoir.

 

0 Ummæli

laugardagur, desember 08, 2007

Bookmark and Share

titill


skondið hvað mér finnst oft erfitt að finna titla á færslurnar mínar...

annars bara lítið að frétta hjá okkur hjónakornunum, nema hvað karlinn er kvefaður og með hósta sem heldur vöku fyrir okkur báðum. Ég hrökklaðist í sófann síðustu nótt, en það gerði víst lítið gagn því ósjálfrátt fór ég að hlusta eftir bofsinu í honum inni í herbergi.

Ég á eftir að leggja fyrir eitt próf á mánudaginn. Lífið verður ljúft þegar yfirferð á þeim prófum er lokið. Ætli maður fari þá ekki að pakka niður búslóðinni og undirbúa jólin. Þó hef ég ákveðið að vera ekkert að setja upp eitthvað jólaskraut, læt bláu peruna á svölunum duga þetta árið.

Við kíktum upp í íbúð í vikunni og það var búið að setja upp eldhúsinnréttinguna, flísaleggja þvottahúsið og baðið og koma baðkarinu fyrir. Ég bara verð að segja að ég hlakka mikið til að flytja í nýju íbúðina og fá smá víðáttubrjálæði!

Ég er aðeins meira farin að átta mig á þessu facebook-dóti, en mér finnst þetta vera svo draslaralegt, þ.e. allt of mikið af alls konar dóti og drasli á síðunni. Þetta bara minnir mig á sumar kennslubækurnar í ensku þar sem búið er að troða allt of mikið af myndum héðan og þaðan auk texta hingað og þangað, ekki sjáanlegt skipulag. Tek það fram að ég nota ekki svona 'busy' bækur...bara höndla það ekki. Kannski er ég einhverf. Mér líður til dæmis ekki vel ef kennslustofan er í óreiðu; borðin skulu vera í beinni línu, en ekki á víð og dreif eins og stundum vill víst gerast.

...hehe...nú er ég komin með fullt af hugmyndum um titla, en þessi færsla er óvenjulega efnislega víðfeðm (ef hægt er að taka svo til orða)

-þar til næst-

 

0 Ummæli

fimmtudagur, desember 06, 2007

Bookmark and Share

litli frændi að slá í gegn


Ægir 'litla skítarassgatið' fékk verðlaun í ljóðasamkeppni í tilefni af degi íslenskrar tungu. Ætli maður verði ekki að láta ljóðið fljóta með...

Undarlegt einelti

Á meðan myndvarpinn var að kitla mig
Girtu stólarnir niður um mig.
Ég lít upp og sé klukkuna hlæja,
hún hefur stoppað tímann.
Núna getur enginn bjargað mér.

Ég horfi á sjónvarpið
en það er erfitt þegar það hlær bara að manni.
Fjarstýringin skiptir á Omega
bara til þess að pirra mig.
Getur einhver bjargað mér?

Höfundur: Ægir Þór Steinarsson

 

0 Ummæli

mánudagur, desember 03, 2007

Bookmark and Share

blessuð prófin


Þá er formlegri kennslu lokið þessa önnina. Ég mun leggja fyrir þrjú próf og það fyrsta er á morgun. Er núna að vinna í að búa til tvö síðustu prófin. Það er gott að geta unnið heima, verst bara hvað maður á það til að fara að gera eitthvað annað en maður ætti að vera að gera...eins og til dæmis blogga!!!

Ég skoðaði þetta facebook dæmi, skil það ekki alveg, þ.e. tilganginn með því. Kemur kannski.

 

0 Ummæli