miðvikudagur, desember 24, 2008

Bookmark and Share

GLEÐILEG JÓL


Við óskum öllum vinum og ættingjum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Þar sem við förum í sveitina á morgun eða hinn mun ég ekki skrifa neitt hér inn fyrr en á nýju ári.

Bestu kveðjur úr Mosfellsbænum,
Íris og Kalli.

 

0 Ummæli

miðvikudagur, desember 17, 2008

Bookmark and Share

haldiði að mín sé ekki bara byrjuð á jólakortunum


enda ekki seinna vænna ef þau eiga að komast til skila fyrir jól. En skiptir það nokkru máli þótt þau skili sér ekki í póstkassann fyrr en á milli hátíða?

Við Díana komumst að því í gær að við vorum óskaplega vitlausar þegar við vorum litlar. Ég vil helst ekki fara of ítarlega í það núna, en það er alveg ótrúlegt hvað sumir hlutir skipta börn miklu máli...litlir hlutir sem fullorðnum dytti ekki einu sinni í hug. Mér finnst mjög erfitt að útskýra þetta...en ég geri það betur seinna. Þangað til skuluð þið hugsa um hvað það var sem skipti ykkur máli þegar þið voruð ca. 10 ára. Um hvað skrifuðuð þið í dagbókina ykkar? Eða hvað skrifuðuð þið í bréfin til bestu vina ykkar?

 

0 Ummæli

miðvikudagur, desember 10, 2008

Bookmark and Share

jæja þá


fyrst enginn vil segja neitt um dugnaðinn minn (sjá síðustu færslu) þá verð ég bara að skrifa eitthvað annað til að fá athygli.
Ég er hugmyndasnauðasta manneskja í heimi um þessar mundir. Ég get engan veginn toppað jólakortið sem við sendum út í fyrra (fyrir þá sem ekki muna, eða ekki fengu kort þá var Mörður heitinn fyrirsætan á því korti). Ætli það verði því ekki sömu gömlu handskrifuðu jólakortin í ár, ekkert spennandi. Ég hef ekki öðlast þá hæfileika að finnast gaman að skrifa jólakort, en lít pínkulitlum öfundaraugum til þeirra sem njóta þess að skrifa þau á hverju ári. Kannski ég ætti að dreifa þessu bara yfir árið...skrifa 2-4 á mánuði næsta árið í stað þess að vera alltaf á síðustu stundu að skrifa þau svo þau komist í póst í tæka tíð fyrir jólin.
Vill einhver minna mig á það þegar þorri byrjar, að hefja jólakortaskrif fyrir jólin 2009?

 

0 Ummæli

sunnudagur, desember 07, 2008

Bookmark and Share

svo myndó


Jú, ég er sko búin að baka sortir á aðventunni...og það þrjár.
Við Linda klúðruðum saman nokkrum sörum á fimmtudaginn, á sama tíma og ég kveikti í grillinu og lambalærinu sem lá þar í makindum og varð skyndilega eldsteikt (þetta gerðist ca. mínútu eftir að Linda spurði mig hvort ekki þyrfti að fylgjast með grillinu og ég svaraði, "neinei, bara tímanum til að snúa því"). En blessað lambið hafði verið nokkrar mínútur á grillinu. Ég fann brunalykt og hentist út í loftköstum og heljastökkum og tókst að slökkva eldinn. Ég held að ég láti Kalla bara sjá um grillið áfram, hann er svo helvíti góður grillari.

En þetta blogg átti hvorki að vera um lambalæri né Kalla...það átti að vera um smákökur.Sörurnar bragðast rosalega vel og gerði tengdafjölskyldan þeim góð skil í dag þegar þau komu í aðventukaffi.

Við hjónin gáfum skít í kreppuna og fjárfestum í borðstofustólum og borði (sem kemur smákökum ekkert við...ennþá). Borðið fengum við í þeirri snilldarverslun IKEA og setti elskulegi maðurinn minn (sem þetta blogg átti ekki endilega að vera um, en hvernig er annað hægt en að tala um hann þar sem hann er svo elskulegur) það saman í gær á meðan ég skellti í tvær sortir; vanilluhringi (því engin eru jól án vanilluhringja) og engiferkökur (sem eru dásamlega góðar með ískaldri mjólk), en uppskriftirnar fékk ég hjá ástkærri móður minni. Að sjálfsögðu var ég nánast í beinu símasambandi við hana á meðan á myndarskapnum stóð, því mér var það mikið í mun að kökurnar brögðuðust eins og hennar kökur, sem ég held bara svei mér þá að hafi verið raunin. Ég hafði líka ætlað mér að skella í marengstoppa með lakkrískurli, en var svona hálfpartinn að gugna á því (þó að ég sé ógeðslega góð að baka marengs)...æ við sjáum til, ég hef svosem nægan tíma, verandi kennaragrey sem er búið að fara yfir öll prófin sín.

Þetta var færsla um myndarskap minn á aðventunni...ég get ekki lofað áframhaldandi myndarskap í framtíðinni (hmmm...en ekki áframhaldandi í fortíðinni?)

 

0 Ummæli

laugardagur, desember 06, 2008

Bookmark and Share

jóla, skóla, góla...en ekki hjóla...


jú...jóla-undirbúningurinn er í fullum gangi, svo fer skólanum að ljúka og ég er að góla (uppi í skóla) með nokkrum öðrum kennurum klukkan 11 á næstum hverjum degi. Aftur á móti hef ég ekkert verið að hjóla, enda er það allt of holl hreyfing og það er engin ástæða til að vera að þreyta sig á því.

 

0 Ummæli

miðvikudagur, desember 03, 2008

Bookmark and Share

Jólagjöfin hans í ár...veljum íslenskt


 

0 Ummæli