sunnudagur, september 25, 2005

Bookmark and Share

fýluferð


Við Kalli skelltum okkur í IKEA áðan, ætluðum að redda okkur ódýrum lausnum fyrir heimilið. Við vorum búin að ákveða alveg hvað við ætluðum pottþétt að kaupa, alls fimm hlutir og aðeins einn af þeim var til...hvað er með þessa verslun? Það er bara annar hver hlutur uppseldur. Linda og Unnar ætluðu að kaupa sér hillur og sjónvarpsskáp og það var bara nokkurra vikna biðlisti! Það er alla vega tveggja vikna bið eftir því sem við ætluðum að fá. Við ákváðum bara að bíða með þennan eina sem var til. Svo fórum við aðeins í rúmfatalagerinn og komum einnig tómhent út þaðan. Þá var förinni heitið í Bónus og þar fengum við ekki heldur allt sem var á listanum. Við sem vorum með þetta allt á hreinu og út planað...allt í vaskinn. Þessi innkaup verða víst að bíða betri tíma.

 

0 Ummæli

laugardagur, september 24, 2005

Bookmark and Share

eins og það er nú gott...


...að fara í heita sturtu, þá var það nú bara vont. Áður en við fórum út komu smá kaldar og heitar gusur inn á milli og það virðist sem þær hafi magnast á meðan við vorum úti. Þegar við fluttum aftur fundum við verulega fyrir gusunum. Þær komu til skiptis ÍSkaldar og SJÓÐheitar þannig að maður var sífellt að stökkva undan bununni. Nú er aftur á móti aftur orðið gott að fara í sturtu, því við fjárfestum í þessum fínu Damixa blönduartækjum og það er algjör unun að fara í sturtu núna.

Unnur Björk er víst búin að "klukka" mig...ég er að hugsa málið. Er að reyna að grafa upp eitthvað bitastætt til að deila með lesendum.

 

0 Ummæli

föstudagur, september 23, 2005

Bookmark and Share

á ferðalagi


ég man aldrei hvað ég ætla að skrifa hér inn...samt stend ég mig að því að hugsa í bloggfærslum. Við fórum í ferðalag með lífsleiknihópana í gær og komum heim aftur í dag. Alls 240 nemar...tveir hópar fóru í Vindáshlíð, tveir á Laugarvatn, tveir í Þórsmörk og við fórum á Skóga. Það gekk bara vel og var bara aldeilis gaman. Við stoppuðum við Seljalandsfoss og Seljavallalaug á leiðinni austur, sumir fengu sér smá sprett í gömlu lauginni. Svo á heimleiðinni í morgun stoppuðum við í Sögusetrinu á Hvolsvelli þar sem við fengum þessa líka fínu fræðslu um Njálu. Ég man að mér fannst Njála mjög skemmtileg bók og eftir þessa ferð langar mig eiginlega bara að lesa hana aftur. Kannski maður geri það bara þegar tími gefst.

Ég held að ég sé að verða vitni að nokkurs konar "internet einelti". Hvernig er það, er ekki hægt að gera eitthvað þegar fólk er að skrifa einhvern óþverra inn í gestabækur og skilaboðakerfi? Ég ætlaði að skrifa afmæliskveðju til hennar Dagnýjar í gestabókina hennar og mér til mikils ógeðs þá eru einhverjir óprúttnir krakkagrísir, sem kunna illa að stafsetja, búnir að skrifa ljót skilaboð sem benda til mikils vanþroska í gestabókina og inn á skoðanir. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta kemur fyrir hana Dagnýju og finnst mér þetta mjög leiðinlegt þar sem þetta fólk þekkir hana ekki neitt. Skítlegt eðli.

 

0 Ummæli

sunnudagur, september 18, 2005

Bookmark and Share

réttarmyndir


af þessum og fleiri góðum á heimasíðu Skaftárhrepps

 

0 Ummæli

föstudagur, september 16, 2005

Bookmark and Share

lífið er tík


...eða allavega stundum...sumt af því...allavega þegar bjánafólk sem fer í Bónus ræður ekki við kerrurnar sínar og lætur þær renna á ísjakann minn og dælda brettið á honum....já, lífið getur verið tík!

Annars var ég á skyndihjálparnámskeiði í skólanum í dag. Ég held að ég hafi farið á slíkt námskeið síðast þegar ég var í MH. Mikið hefur maður gott af því að fara á svona námskeið. Maður ryðgar í þessu eins og öðru sem maður notar ekki (kannski sem betur fer að maður þurfi ekki að nota þetta). En það hefur ýmislegt breyst, sumar aðferðirnar sem maður "kunni svo vel" eru orðnar úreldar. Leiðbeinandinn sagði okkur að einungis í 50% atvika þar sem hringt er eftir neyðaraðstoð hefur sá/sú sem er á staðnum veitt einhverja neyðarhjálp. Þ.e. fólk gerir ekkert til að hlúa að þeim slasaða. Það ætti að skylda fólk til að fara á svona námskeið á fárra ára fresti.

 

0 Ummæli

miðvikudagur, september 14, 2005

Bookmark and Share

það hlaut að koma að því


þá er Esjan orðin grá á kollinum og norðanáttin skítköld...

 

0 Ummæli

sunnudagur, september 11, 2005

Bookmark and Share

aftur og aftur


Jæja, þá er enn ein réttarhelgin liðin. Rolugreyin drógu rollugreyin í dilka og svo var rekið heim eins og hefðin segir til um. Þetta er alltaf jafn gaman, þó svo að veðrið hefði mátt vera aðeins þurrara. Hann hélst þurr að mestu, en það komu tvær góðar gusur yfir okkur, önnur í réttinni og hin í rekstrinum heim. Allt fór þó vel að lokum og lömbin eru komin heim í tún, feit og fín.
Við Kalli læddumst burt í morgunsólinni í morgun og tókum stefnuna á höfuðborgina. Ég átti nefnilega rástíma á hádegi. Við vorum komin í tæka tíð og rúmum fimm klukkustundum síðar hafði ég spilað 18 holur með þremur kennurum úr FB; einum íþróttakennara og tveimur "timburmönnum". Það gekk svona upp og ofan, maður á sínar góðu og slæmu stundir í golfinu eins og í öllu öðru. Ég komst nú ekki á verðlaunapall, en skorkortið mitt var þó dregið úr bunkanum í happadrættinum og fékk ég tylft af golfkúlum. Svo er ég að tala um að ég detti ekki í lukkupottinn...meira bullið, eins heppin og ég er. Minn lukkupottur er risastór, ég er ofboðslega rík!

 

0 Ummæli

miðvikudagur, september 07, 2005

Bookmark and Share

réttargolf


réttir...golf...æ, ég held að ég geri bara bæði (ekki bæði í einu samt). Ég hef hugsað mikið um það hvort ég ætti að mæta á golfmót framhaldsskólakennara á sunnudaginn...mér skilst að ræst sé út á milli 10 og 12. Ég held að ég geri það bara...enda finnst mér réttirnar og reksturinn það skemmtilegasta við réttarhelgina...og auðvitað bara að hitta fólkið sitt. Ég ræsi Kalla bara snemma á sunnudagsmorguninn og skelli mér á mótið. oghananúsagðihænanoglagðistábakið

 

0 Ummæli

Bookmark and Share

"Davíð er að hverfa"...


þetta sagði hann Sigmundur Ernir á Stöð2 núna rétt áðan...mér fannst það bara svolítið skondið að segja svona. Hann er kannski að hverfa á braut, eða láta sig hverfa af pólitískum vettvangi...en ég efast nú um að maðurinn sé að hverfa, hann er nú bara að fara í Seðlabankann.

Busadagurinn er á morgun, ætli maður verði ekki að vera viðstaddur og sjá til þess að busunum manns verði ekki misþyrmt óþarflega mikið...neinei, þetta hlýtur allt að fara vel fram, en ég ætla samt að fylgjast með þessum ósköpum.

Ætla ekki annars allir í réttirnar um helgina?

 

0 Ummæli

laugardagur, september 03, 2005

Bookmark and Share

litla sæta nafnan mín...


Við vorum í skírnarveislu í dag þar sem Davíð Andri og Sunneva létu skíra litlu dúlluna sína. Það höfðu verið aðeins vangaveltur um hvort þau myndu nú bæta öðru nafni við Júlíu-nafnið. Hvorugt hefði nú komið mér á óvart...en það kom mér samt á óvart að hún var skírð Júlía Rut...ég fékk semsagt nöfnu í dag, rosa stolt frænka! Þetta er einnig merkur dagur fyrir það að hann Davíð afi minn á 89 ára afmæli í dag og óskum við honum til hamingju með það.

 

0 Ummæli

fimmtudagur, september 01, 2005

Bookmark and Share

er ekki tími til kominn að....


maður er ekki langt frá því að vera barasta letibloggari. Veit svosem ekki hvað ég á að segja, heilinn minn er í graut. Það er víst svolitið mikill undirbúningur sem fylgir því að byrja að kenna. Maður hefur nú ekki mikla inneign á þeim reikningi í reynslubankanum. Þegar ég kem heim úr vinnunni langar mig ekki að gera neitt, bara slæpast og horfa á eitthvað heiladautt í sjónvarpinu. En núna fer að koma smá rennsli í starfið og mikill undirbúningur að baki og þá fer allt að komast í fastari skorður...vonandi. Jæja, nóg af þessu bulli.

Maður hefur oft heyrt um þennan víðfræga lukkupott sem hinir og þessir detta í. Ég tel mig vera mjög lukkulega manneskju þó að ég hafi ekki lent í svona potti. Kannski er Kalli minn lukkupottur, því hann varð svo heppinn á dögunum að vinna helgarferð fyrir tvo til hinnar rómantísku borgar Parísar. Ætli maður verði ekki að fara að dusta rykið af frönskunni og panta miðana. Einn óprúttinn náungi reyndi að fá Kallann minn til að heita á sig, en hann er svo vel upp alinn, þessi elska, og tók ekki annað í mál en að taka sína ástkæru (nefnilega mig) með sér.

Fyrir utan París er stefnan okkar tekin á Eyfa annað kvöld með mömmu og pabba og svo Réttirnar aðra helgi...ohhh ég hlakka svo til. Fyrir ykkur sem hafið ekki tekið eftir því, þá höfum við Kalli nefnilega misst af réttunum tvö ár í röð.

 

0 Ummæli