fimmtudagur, desember 28, 2006
miðvikudagur, desember 27, 2006
fyrstur kemur...
já, mín ætlaði sko að ljúka þessu skiptiveseni af og mæta í Hagkaup um leið og opnaði í morgun til að skipta Pictionary spilinu. Stundaglasið var brotið í kassanum og sandurinn út um allt. Ég ákvað að fara bara í Hagkaup í Spönginni og var mætt þar um tíuleytið. Þá var allt harðlæst og starfsfólkið eitthvað að dunda sér innan dyra. Á dyrunum var miði með opnunartíma verslunarinnar og samkvæmt honum átti að opna klukkan 10! Mér fannst nú heldur skítt þegar ekki var búið að opna tuttugu mínútur yfir, þannig að ég hringdi í Hagkaup (mundi meira að segja númerið...borgaði sig að hafa unnið á 118 góðan dag!)og spurðist fyrir. Þá var mér sagt að búðin yrði opnuð klukkan 11:00...og 11:19 í Kringlunni...fyrr má nú fyrr vera. Ég sagði dömunni að mér þætti slakt að geta ekki sett réttan opnunartíma á verslunina, þar sem fullt af öðru fólki var mætt á svæðið. Ég hélt þá af stað niður í bæ til að skutla Kalla í Tryggingastofnun. þegar þangað var komið fyrir ellefu þá komumst við að því að þar opnaði ekki fyrr en klukkan tólf...önnur fýluferð. Ég skilaði Kalla þá bara í vinnuna aftur og fór í Kringluna með Pictionary spilið. Þar tókst mér að skila því á ágætum tíma (tók 20 mínútur því ég þurfti að standa í röð!) Svo fór ég aftur með Kalla að skila pappírunum í Tryggingastofnun á hádegi. Að því loknu fengum við okkur hádegisverð á American Style í Tryggvagötunni. Þar varð ég opinberlega gömul, og ekki bara vegna þess að það tók óvenjulega langan tíma að fá matinn, heldur aðallega vegna þessa að þegar drengurinn kom með matinn spurði hann hvort okkar væri með 'Heavy Special', Kalli var með hann; svo rétti hann mér minn disk og sagði: "Ostborgari handa frúnni"...en mikið rosalega eru það góðir borgarar.
mánudagur, desember 25, 2006
gleðileg jól og takk fyrir okkur
Við hjónakornin áttum ánægjulegt aðfangadagskvöld í Mosinni hjá tengdó. Þar gæddum við okkur á dýrindis mat, opnuðum fínar jólagjafir og lásum jólakortin. Við þökkum kærlega fyrir okkur.
Hverjir ætla austur um áramótin?
sunnudagur, desember 24, 2006
jólin jólin alls staðar...
jæja, þá koma bráðum blessuð jólin og börnin fara að hlakka til. En ætli þau fái ekki eitthvað meira og stærra og dýrara en kerti og spil, miðað við troðninginn í verslunum borgarinnar undanfarna daga þá lítur út fyrir það. Burtséð frá því, þá óska ég öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári...og já, góða skemmtun í 'skilaröðunum' eftir jól, aldrei að vita nema við sjáumst þar.
Íris kveður að sinni.
fimmtudagur, desember 21, 2006
dimmir dagar með hávaðaroki
Þetta veður er nú ekki eðlilegt. Er til endalaus lager af roki á þessu landi? Alltaf þegar maður heldur að það sé aðeins að lægja þá rýkur hann upp aftur, og ekkert lítið. En það er nú ansi huggulegt að sitja heima undir teppi og heyra vindinn og élin berja á gluggunum.
þriðjudagur, desember 19, 2006
nei það er ekki svart
jólatréð okkar er grænt og nú skreytt rauðum, hvítum og gylltum litum með glæra ljósaseríu, svaka flott.
Nú er ég barasta alveg komin í jólafrí. Búin að fara yfir öll próf, sýna þau, afhenda einkunnir og ganga frá prófunum í geymslu. Nú er bara að klára jólaundirbúninginn og hlaða batteríin fyrir næstu önn.
fimmtudagur, desember 14, 2006
oh, Christmas Tree, oh, Christmas Tree...
Mín komst í jólagírinn í dag. Ég skellti mér í Húsasmiðjuna og Blómaval í dag og keypti þetta líka fína jólatré og smá skraut á það. Við Kalli hentum því saman og skreyttum í kvöld og það lítur bara mjög vel út, ákaflega huggó að hafa það í stofunni. Ég verð nú bara að viðurkenna að ég var mjög spennt að skreyta tréð.miðvikudagur, desember 13, 2006
yfirferð að baki
þá er prófayfirferðin mikla að baki, að mestu leyti allavega. Ég er búin að fara yfir 110 próf síðan á mánudaginn og þar sem hvert próf er a.m.k 10 blaðsíður þá er ég búin að fara yfir 1100 blaðsíður. Dágott það. Núna þarf ég bara að henda einkunnunum inn í kerfið og bíða svo eftir sjúkraprófunum sem eru á mánudaginn kl. 13:00.Það hefur lítið annað á daga mína drifið. Ég var nú samt að hugsa að ég hef ekkert tuðað yfir misheppnuðum Frostrósatónleikum sem ég fór á í síðustu viku með mömmu og Lindu. Sem betur fer voru Sissel og Eivör að syngja þar, því annars hefði ég farið grátandi heim. Þær eru rosalega góðar og gjörsamlega redduðu tónleikunum. Allt annað var meira og minna glatað...
sunnudagur, desember 10, 2006
bilun og rokrassgat
Ég er svo rosalega bjartsýn manneskja. Ég fór í Byko í gær og ætlaði að kaupa lítið og sætt gervijólatré sem ég sá í bæklingnum frá þeim. Ég mæti á svæðið og finn hvergi þetta litla og sæta jólatré, þannig að ég vind mér að starfsmanni þar (sem var rosalega upptekinn við að skrifa SMS) og spyr hann bara hreint út hvar þetta litla og sæta 90 cm tré væri staðsett í búðinni. Hann klóraði sér í kollinum og fór svo með mig þar sem nokkrum jólatrjám hafði verið stillt upp...hin og þessi tré með ljósleiðara og alles. Ég tjáði honum að ég hefði engan áhuga á ljósleiðaratré, heldur vildi ég eitt svona lítið og sætt í litlu stofuna mína. Þá grípur hann eitt ræfilslegasta tré sem ég hef á ævinni séð og sýnir mér. Þetta er tréð í bæklingnum, það kostar 990 krónur. Ég bara varð alveg kjaftstopp. Ég sá nú eins og skot að þetta var sko ekki litla sæta tré sem var í bæklingnum, þvílík auglýsingabrella. Þá færi ég nú frekar í Húsasmiðjuna og nældi mér í flottara tré þar. En þar sem fólk var gjörsamlega að tapa sér yfir jólainnkaupum þá nennti ég engan veginn að fara í aðra búð þann daginn, var búin að fá yfir mig nóg af frekjum sem hugsa bara um eigin rass og dettur ekki í huga að víkja fyrir einum eða neinum hvort sem það er í umferðinni á götum úti eða í búðum inni. Þá er nú gott að vera kennari og eiga þann möguleika að komast í búðir fyrri part dags á virkum degi, en það ætla ég að gera eftir helgina og njóta þess í rólegheitum.
Hvað segið þið annars um rokið?
miðvikudagur, desember 06, 2006
þótt fyrr hefði verið...
Ég er loksins búin að henda inn myndum úr brúðkaupinu (að ósk Unnar Bjarkar). Þær eru í myndaalbúmi II, en einnig getið þið smellt hér til að skoða.
Það er eitthvað rólegt hér á síðunni og hefur verið undanfarna daga. Mér skilst að HP Foss sé raunverulega að vinna í vinnunni og fari þvi svo lítið fyrir honum hér. Hvernig skyldu flutningarnir ganga hjá honum og Kristjáni?
sunnudagur, desember 03, 2006
amerískur sunnudagsmorgunn
Við hjónakornin áttum amerískan sunnudagsmorgun í morgun. Ég eldaði scrambled eggs (ætli það séu ekki hrærð egg á íslensku), steikti beikon og bakaði amerískar pönnukökur (sem að sjálfsögðu voru borðaðar með hlynssýrópi). Á meðan við gleyptum þetta í okkur þá horfðum við á ameríska háskólaboltann í sjónvarpinu. Já, það gerist nú varla mikið amerískara (nema að vera staddur í ameríkunni líka).
Annars er ætlunin að taka því rólega í dag, sem aðra daga, enda engin ástæða til að stressa sig yfir einu eða neinu. Hafið það sem allra allra best á þessum fyrsta sunnudegi í aðventu.
laugardagur, desember 02, 2006
ó ljúfa líf
Í gær var síðasti kennsludagur á þessu ári. Eftir helgi byrjar svo prófatörnin og sá tími er yfirleitt ljúfur fyrir kennara. Þeir sitja yfir nokkrum prófum og fara svo yfir þau próf sem þeir leggja fyrir. Þess á milli gefst tími til undirbúinings fyrir næstu önn, já, eða fyrir jólin, en í þau eru einungis 22 dagar. Mikið rosalega líður þessi tími hratt.
Annars fýsir mig að vita hvort hún Solla mín ætli sér að fara í afmælisgöngu á morgun, og kannski einhverjir fleiri?
Við Kalli erum að fara í leikhús í kvöld. Það vill svo skemmtilega til að þetta er einmitt sama sýning og mamma og pabbi eru að fara að sjá á sama tíma, en við pöntuðum ekki miðana saman...þar voru engin samráð á ferð, einungis tilviljanir. Leikritið sem við erum að fara að sjá er Stórfengleg sem er sýnt í Þjóðleikhúsinu. Ég er að spá hvort maður þurfi að taka með sér eyrnatappa þar sem leikritið fjallar um heimsins verstu söngkonu!