þriðjudagur, júlí 31, 2007

Bookmark and Share

endalok


skrýtið orð...enda-lok..."þá er komið að lokum endisins"...hljómar eins og tvöföld neitun í enskunni "I'm not going to do nothing about it" sem er að sjálfsögðu kolrangt. En allavega, þá er komið að endalokum júlímánaðar og maður farinn að sjá fyrir endann (afturendann...óæðri endann)á þessu sumri, sem er bæði gott og slæmt. Ég elska sumur, en eftir svona frí er alltaf gott og gaman að hitta samstarfsfólkið og nemendurna sem og að komast aftur í nokkurs konar 'rútínu'. Manni finnst sumarið búið eftir Verslunarmannahelgina. Hvað ætlið þið að gera um verslunarmannahelgina? Ég ætla að skottast austur í sveitina mína og eyða helginni með mínum frábæru og yndislegu ættingjum.

 

0 Ummæli

sunnudagur, júlí 29, 2007

Bookmark and Share

prófraunir


Mig langar að spyrja ykkur sem eruð í sambandi og þá sérstaklega konur einnar spurningar: Kemur það fyrir að þið leggið 'próf' fyrir manninn ykkar? Leyfið mér að útskýra. Ég nefnilega stend mig að því að leggja próf fyrir manninn minn, og þá er ég ekki að tala um skriflegt próf heldur verklegt sem tengist iðulega heimilisstörfunum eða einfaldlega bara frágangi. Ég er ekki að segja að ég sé snyrtilegasta manneskja í heimi með tiltekt og hreingerningu á heilanum, langt í frá. En stundum bara læt ég það vera að taka glösin hans og fara með þau í vaskinn, vaska upp, tína fötin upp af gólfinu við rúmið eða setja ekki nýjan ruslapoka í ruslið eftir að hann fór út með það (að sjálfsdáðum...duglegur), bara svona til að sjá hversu lengi það verður þarna óhreyft. Ég skal segja ykkur það að ég hef séð myglaða botnfylli af kók í glasi! Í lang-flestum tilvikum tapa ég...þ.e.a.s. gefst upp og sé um þetta. Með öðrum orðum þá get ég ekki sagt að hann hafi staðist prófið. Ég veit að sumir hugsa núna (og er ég með ákveðnar manneskjur í huga) að hann sé að prófa mig og mikið er ég nú 'slow' að ganga frá...eða að mikið skuli ég vera mikill 'sucker' að falla fyrir þessu...en stundum pirra ég mig yfir þessu. Hvers vegna er ég að pirra mig yfir svona smáhlutum? Er ég að breytast í mömmu mína (sem er hin fínasta manneskja, ekki leiðum að líkjast þar...en samt)? Væri ekki bara einfaldara að ganga frá þessu strax og láta það gott heita? Er ég nokkuð ein á báti í þessum hlutum? Er ég biluð? Nei, annars ekki svara síðustu spurningunni...held ég viti svarið við henni sjálf.
Að lokum, ein spurning til karlmanna: Takið þið eftir svona hlutum?

 

0 Ummæli

miðvikudagur, júlí 25, 2007

Bookmark and Share

hann telur


ég er með teljara á síðunni þar sem ég get fylgst með fjölda þeirra sem kíkja á síðuna mína. Í dag hafa 12 heimsóknir verið skráðar og ég hef satt að segja ekki hugmynd um hverjir eru að skoða síðuna mína. Að sjálfsögðu er öllum velkomið að kíkja við (annars væri ég fyrir löngu búin að læsa síðunni) en mér þætti vænt um að fá smá 'kvitt' frá ykkur...þið þurfið ekki að skrifa neinar langlokur...bara láta vita af ykkur, því mig fýsir að vita!!!

 

0 Ummæli

þriðjudagur, júlí 24, 2007

Bookmark and Share
það er lítið að gerast hjá mér þessa dagana. Við fórum austur síðustu helgi og þar var pallurinn kláraður og við Kalli bjuggum til eldstæði fyrir sunnan pallinn, svakalega flott. Þar kveiktum við smá varðeld á laugardagskvöldið. Sátum í kring um hann og sungum ættjarðarsálma. Svakalega huggulegt. Núna sit ég heima á daginn og reyni að huga að komandi önn. Stundum finnst mér svolítið erfitt að halda mér við efnið, á það til að finna mér eitthvað allt annað að gera en það sem ég ætti að vera að gera. Til dæmis að blogga þegar ég á að vera að lesa! Maður ætti kannski bara að hætta þessu bloggrugli...

 

0 Ummæli

fimmtudagur, júlí 19, 2007

Bookmark and Share

sólarpása...


já, sólin hefur ákveðið að hvíla sig frá höfuðborgarsvæðinu í dag (og mun gera það á morgun líka, skilst mér). Gróðurinn fagnar því sjálfsagt (en ekki allir þeir sem keyptu upp allar garðslöngur í verslunum). Ég notaði þetta fína veður og ákvað að skokka upp á höfða og ná í hjólið mitt í Sláttuvélamarkaðinn, en það var í stillingu þar. Þvílíkur munur á hjólinu; ég þurfti bara aldrei að stoppa til að losa keðjuna. Þrátt fyrir vel stillt hjól var afskaplega erfitt að hjóla upp brekkuna við Gullinbrú...etv. segir það meira um líkamlegt ástand og form mitt!!!

Eins og sést hér er einn nemenda minna í heldur betra formi...

 

0 Ummæli

sunnudagur, júlí 15, 2007

Bookmark and Share

allt að komast í samt horf


það er búið að vera svo mikið heimshornaflakk á Fossapakkinu að það hálfa væri nóg. Það var ekki möguleiki fyrir mig að vita hverjir voru að koma og hverjir að fara, en nú er þetta allt að komast í samt horf. Flestir komnir heim. Dagný er reyndar stödd í Finnlandi núna og Hlynur á eftir að fara til Tyrklands í ágúst. Mamma og Pabbi komu heim ásamt Davíð Andra, Sunnevu og Júlíu Rut síðastliðinn fimmtudag, en akkúrat þann saman dag varð Júlía Rut tveggja ára. Hún bauð okkur í afmæliskaffi í dag.

 

0 Ummæli

fimmtudagur, júlí 12, 2007

Bookmark and Share

hér tjaldar þú ekki, vinan...


var að heyra í útvarpinu að á tjaldsvæðinu á Laugarvatni mega ekki hópar af einstaklingum yngri en 30 ára tjalda...ég mætti semsagt ekki fara með vinkonum mínum og tjalda á Laugarvatni. Ég, Díana, Lára Kristín, Þórunn Lísa, Kösurnar og Þorbjörg mættum því ekki fara í útilegu á Laugarvatn...skondið, eins og við erum nú þroskaðar.

 

0 Ummæli

föstudagur, júlí 06, 2007

Bookmark and Share

glæpakvendi og klisjukóngur


já, það er ég og Stefán Hilmarsson....
ég játa mig seka um alvarlegan glæp. Ég hringdi ekki í ömmu í gær, en hún átti afmæli. Ég talaði aftur á móti við hana í fyrradag og þá tilkynnti hún mér að hún vildi sko alls engar gjafir. Af því að hún er kona, skyldi það þá þýða að hún vilji gjafir?!?! Nei, ekki ef ég þekki ömmu rétt. Þó hún sé rugludallur þá er hún nú yfirleitt hreinskilin (stundum einum of) og segir það sem hún hugsar. Ég er að fara austur á eftir og þá fær hún stórt knús.

Þá að hinu málinu...ég vil tilnefna Stefán Hilmarsson klisjukóng Íslands. Ég var að hlusta á útvarpið og heyrði nýja lagið með honum Astró...eitthvað...textinn er ein stór klisja...reyndar eru mörg Sálarlögin hlaðin klisjum líka ef maður hlustar eftir þeim. Hvað er ein og ein klisja á milli vina?

 

1 Ummæli

þriðjudagur, júlí 03, 2007

Bookmark and Share

gullkorn


Ég sótti Elísabetu og Ísabellu í leikskólann á föstudaginn. Á leiðinni heim sagði Elísabet mér að hún hefði farið heim til eins kennarans sem byggi í Grafarholtinu og fengið þar grillaðar pylsur og Svala. Kennarinn á tvær stelpur, "litla og stóra". Þau léku sér bara að dóti litlu stelpunnar því stóra stelpan vildi ekki láta rusla til í herberginu sínu. Ég spurði hvað litla stelpan væri gömul. "Fjögurra ára", sagði Elísabet. "En hvað er stóra stelpan gömul?". spurði ég. "Æ, ég man það ekki. Sjö eða átta, eða nítján eða tuttugu!"

Skondið hvað börn hafa ekkert skyn á aldur. Ég man þegar Jóna, systir mömmu, varð 'tuttugu ára'...mér fannst hún sko vera eldgömul, með annan fótinn í gröfinni. Núna finnst manni fólk á sjötugsaldri ekkert svo gamalt.

 

0 Ummæli

mánudagur, júlí 02, 2007

Bookmark and Share

ég elska sumar


sérstaklega þegar veðrið er svona gott. Samt vildi ég að maðurinn minn væri líka í fríi og gæti notið þess með mér. Núna eru mamma og pabbi, ásamt Davíð Andra, Sunnevu og Júlíu Rut, stödd í Canada. Ég talaði við pabba í fyrradag og hann spurði hvernig veðrið væri hér á landi. Ég sagði að sjálfsögðu sannleikann og sagði að það hafi verið bongó blíða síðan á fimmtudaginn (en þau fóru út á miðvikudaginn). Hann sagði þá...oohh, alltaf missir maður af svona góðu veðri þegar maður fer út. Þá spurði ég hann hvernig veðrið væri hjá þeim...það var sól og 25 stig hjá þeim!

 

0 Ummæli