þriðjudagur, desember 30, 2003

Bookmark and Share
Jahérna, það fer ekki á milli mála hverjir eru vinsælastir í fjölskyldunni, vinsældakannanirnar sýna að:
Af systkinunum varð María vinsælust með 25% atkvæða, eða 14 atkvæði.
Af mökum þeirra varð Björgúlfur vinsælastur með 29%, eða 18 atkvæði.
Ég, moi, er vinsælust af systkinadætrunum og fékk 25 atkvæði, eða 24%, Díana kom rétt á eftir með 23 atkvæði (22%).
Af systkinasonunum varð enginn annar en HP Foss vinsælastur, kemur á óvart, eða hvað? Hann rústaði könnuninni og fékk 44% atkvæðanna, alls 42.
Af mökum frændsystkinanna varð nýjasti löggildi meðlimur ættarinnar flest stigin, en hann Steini fékk 29 atkvæði sem gerir 37%. Ragnhildur fylgdi fast á hæla hans með 31% atkvæðanna, eða 24 atkvæði alls.
Til hamingju með að vera svona vinsæl!!!

Gleðilegt ár kæru ættingjar og vinir, þakka samverustundirnar á árinu sem er að líða


 

0 Ummæli

mánudagur, desember 29, 2003

Bookmark and Share
Andrés afi á afmæli í dag. Til hamingju með afmælið elsku afi minn.

 

0 Ummæli

föstudagur, desember 26, 2003

Bookmark and Share
Binni frændi á 25 ára afmæli í­ dag. Innilega til hamingju með daginn, Binni minn.

 

0 Ummæli

miðvikudagur, desember 24, 2003

Bookmark and Share
Jei...komin í netsamband...á Fróni!!!
Ég vil byrja á því að óska Brit til hamingju með afmælið, en hún átti afmæli á sunnudaginn 21. desember.

Ferðin gekk bara vel hjá okkur. Við flugum með 40 sæta Saab frá College Station til Dallas. Mér leist nú reyndar ekkert á blikuna rétt eftir að búið var að ræsa vélina þegar flugfreyjan kom aftast í vélina og bað um tvo sjálfboðaliða til að færa sig fremst í hana...jæja, það er alla vega gott að það er hugsað um að dreifa þyngdinni um vélina (þetta hefur örugglega verið af því að ég sat aftast...úbbs, vélin of þung þar!). Svo varð klukkutíma töf á vélinni sem við tókum frá Dallas, það þurfti að laga smá dæld í henni, mjög traustvekjandi það. Flugstjórinn sagði alltaf í kallkerfinu að viðhaldsmennirnir væru rétt að klára "pappírsvinnuna", meiri pappírsvinnan þar, við heyrðum alveg í "fræsaranum" eða hverju sem þeir voru að nota til að laga vélina. En það hafðist allt saman fyrir rest og við vorum komin til Baltimore um tvöleytið að staðartíma, en þar biðum við í sjö klukkustundir. Flugleiðavélin fór klukkutíma of seint í loftið, því gellurnar sem standa við útgönguhliðið og rífa af flugmiðunum komu tölvunni ekki í gang, þær föttuðu ekki strax að hún var ekki í sambandi, svo loks þegar þær áttuðu sig á því hvar hún átti að fara í samband þá gátu þær ekki ræst kerfið upp!!! Reyndar gekk líka eitthvað illa að afferma og ferma vélina. Vélin náði að vinna upp mesta tímatapið og við vorum ekki nema korteri á eftir áætlun í Keflavík.

Mikið finnst mér skrýtið að mér skuli ekki finnast skrýtið að vera komin heim.

 

0 Ummæli

sunnudagur, desember 21, 2003

Bookmark and Share
Nú erum við búin að pakka niður í fjórar stórar ferðatöskur og erum til í slaginn. Við erum að fara að sofa núna því við þurfum að vera komin út á völl hér klukkan fimm í fyrramálið. Héðan fljúgum við til Dallas þar sem við þurfum að skipta um vél til Baltimore, þar sem við þurfum að bíða í 9 tíma...jibbý...En við ættum að lenda á Fróni á mánudagsmorgun, væntanlega í kring um hálf sjö. Greyið mamma og pabbi fá að vakna snemma til að sækja okkur!!!

Hlökkum til að sjá sem flesta vini og ættingja um hátíðirnar.

 

0 Ummæli

föstudagur, desember 19, 2003

Bookmark and Share
jæja...þá fer að koma að því.....ég vil bara vara alla við...frekjuhlussan er að koma frá Texas á mánudagsmorgun!!!

Ji, hvað ég hlakka til, mér finnst samt ekki eins og það séu næstum því fimm mánuðir síðan ég var á Íslandi síðast. Ég held að bloggið mitt og frábær svörun (þar fer HP fremstur í flokki) hafi mikið að segja. Ég hef örugglega meira samband við vini og ættingja núna í gegnum bloggið heldur en nokkurn tíma áður...þá voru það bara þorrablót og réttirnar og búið...jú kannski brúðkaup, fermingar og skírnir, en ekki mikið meira en það!!! Hugsið ykkur, ef við myndum hittast á öllum afmælisdögum Fossapakksins líka, þá gætum við allt eins búið saman nánast allan nóvember!!! Ætli við fengjum ekki nóg hvert af öðru?

 

0 Ummæli

fimmtudagur, desember 18, 2003

Bookmark and Share
Ú! gleymdi að segja að ég er búin að bæta inn nokkrum myndum í myndasafnið....loksins....þær eru undir "Myndir frá USA!"

 

0 Ummæli

Bookmark and Share
Ég verð nú bara að deila þessari sögu með ykkur. Ég sá þetta á fotbolti.net. Jón Þorgrímur Stefánsson skrifaði:
Þetta gerðist í USA, þar sem ég var í skóla í Pensicola í Florida. Ég slapp í gegn og kominn einn á móti markverði, sóla hann og er að fara að leggja boltann í netioð þegar ég er negldur niður aftan frá, augljóslega víti og rautt, en dómarinn dæmir ekkert og gefur mér gult fyrir leikaraskap. Ég náttúrulega trompast og blóta dómaranum í sand og ösku á íslensku, þá labbar dómarinn að mér í rólegheitum og gefur mér beint rautt, brosir og segir "Ég var búsettur í Keflavík í 10 ár!" Ég gat ekki sagt neitt þannig að ég sprakk úr hlátri. Hvaða líkur eru á því að hitta dómara í USA sem varí hernum á Keflavíkurflugvelli og talaði betri íslensku en ég!?

Mér finnst þetta bara tær snilld, ótrúlegt hvað heimurinn getur verið lítill stundum!!

 

0 Ummæli

Bookmark and Share
Vaaaááá...geheðveikur skólabíll...pabbi ætti kannski að skoða svona nánar!!

 

0 Ummæli

miðvikudagur, desember 17, 2003

Bookmark and Share
Þetta eru jólin....ef maður kemst ekki í jólaskap við þetta þá kemur ekkert manni í jólaskap!!!

 

0 Ummæli

þriðjudagur, desember 16, 2003

Bookmark and Share
Það er nú algjör óþarfi að fara algjörlega úr límingunum út af einhverjum heimskulegum frekjukönnunum, kæru frændur, Steinar og Helgi. Ég ætlaði að vera löngu búin að taka þær út en hef ekki haft tíma til þess. Ég hef rétt svo komist í tölvuna til þess að skoða póstinn minn einu sinni til tvisvar á dag, því að Kalli minn er að lesa undir próf hérna við tölvuna og ég vil ekki trufla hann, vil ekki þurfa að reka hann í burtu til þess eins að stússast á netinu.

Ég er sem sagt bara búin að vera löt undanfarna daga...mikið rosalega er það þægilegt...og þarf ekki einu sinni að hafa samviskubit yfir því, allavega ekki mikið. Reyndar er ég búin að þrífa mest alla íbúðina (Kalli hefur verið að nota aukaherbergið og því vil ég ekki trufla hann með einhverju þrifæði) og versla fullt af jólagjöfum.

Reyndar var dálítið útstáelsi á mér um helgina. Á föstudagskvöldið fórum við heim til Tony’s og Cristin, en þau buðu góðum hópi heim til sín í tilefni þess að kennslu var lokið í MBA prógramminu. Við stoppuðum nú ekkert lengi þar, vorum komin heim um miðnætti. Kalli þurfti svo að mæta á laugardagsmorgun og vinna sjálfboðavinnu í “food bank”, þar sem hann var frá 9-1 að sortera og raða mat sem fólk hafði gefið til góðgerða.

Ég var búin að reyna að smala saman stelpunum sem eru með mér í tímum. Ég stakk upp á því að hittast og gleðjast yfir annarlokum og fékk bara aldeilis góðar undirtektir. Við ætluðum að hittast á Dixie Chicken klukkan níu á laugardagskvöldið. Þegar ég mætti á staðinn (stundvíslega að sjálfsögðu), var ein mætt, Ana (þessi frá Costa Rica). Ég settist hjá henni og við keyptum okkur bjór og spjölluðum í smá stund, þangað til Homayra (frá Íran) og Junhui (frá Kína) komu. Homayra var alveg í sjokki þegar hún kom inn, því hún hélt að Dixie Chicken væri veitingastaður en ekki hard core kúrekabar, hún hafði nefnilega aldrei stigið fæti inn á bar áður (hún er múslimi og þeir eru víst ekki mikið fyrir svona pöbbarölt). Junhui er heldur ekki mikið fyrir partýstand og þær stoppuðu því ekki lengi. Við Ana vorum því bara tvær eftir, sátum aðeins lengur, kláruðum bjórinn og spjölluðum um heima og geima þangað til við fórum heim, uppúr ellefu. Þetta var alveg rosalega fínt, mér líkar mjög vel við Ana. Það er alla vega ekki hægt að segja annað en að ég hafi reynt að hrista þennan hóp saman. Kannski erum við bara allar svo ólíkar, okkur kemur rosalega vel saman í tímum og svoleiðis, en við höfum reyndar ekki gert mikið saman fyrir utan kennslustofuna, bara þetta eina skipti þegar við fórum heim til Dr. Rasekh.

Sunnudagurinn fór í þrif. Um kvöldið hélt svo góðgerðarstarfsemin áfram hjá MBA prógramminu, en í þetta sinn voru skemmtiatriði og uppboð á ýmsum hlutum á einum skemmtistaðnum. Það var rosalega gaman, svaka stemning, við tókum slatta af myndum sem verða vonandi settar inn á síðuna mína ef ég hætti að vera svona helv...löt. Hér er samt smá sýnishorn af skemmtiatriðunum sem voru í boði!

 

0 Ummæli

sunnudagur, desember 14, 2003

Bookmark and Share
Óla frænka í Canada á afmæli í dag....og það er stórt....RISASTÓRT!!!


Til hamingju með afmælið, Óla mín.


 

0 Ummæli

föstudagur, desember 12, 2003

Bookmark and Share
Jibbýjei.....loksins loksins.
Nú er ég búin með öll verkefnin....búin að skila þeim öllum af mér...rosalega er mér létt (samt er ég ekkert léttari...ohh, alltaf sama hlussan). Nú get ég farið byrja á hinu stressinu, jólastressinu....neee...ætli maður taki því ekki bara rólega og njóti þess að vera til!!! Þar sem maður verður ekki hér um jólin þarf maður ekki að hafa neinar áhyggjur af skrauti eða bakstri (ekki það að ég hafi haft einhverjar áhyggjur af því hingað til, mamma bakar).

 

0 Ummæli

miðvikudagur, desember 10, 2003

Bookmark and Share
OH...loksins er maður farinn að sjá fyrir endann á öllum þessum ritgerðum og verkefnum....
Í síðustu viku, á miðvikudaginn, skiluðum við af okkur lokaverkefni, sem var tveggja vikna kennsluáætlun (Curriculum Unit), þar sem við skipulögðum tvær vikur af líffræði, líkamsrækt og ensku fyrir 7.bekk. Á laugardaginn skilaði ég af mér lokaritgerð (í kúrsinum sem við fórum til Houston), og það var nú þvílíkur léttir að vera búin með það. Ég hitti hópinn minn í gær (Kristin og Ana, en pabbi hennar er fyrrverandi forseti Costa Rica, sniðugt ekki satt?) og við vorum svo duglegar að við barasta kláruðum eitt stykki ritgerð. Við vorum allar það vel undirbúnar með okkar hluta ritgerðarinnar að okkur tókst að klára hana á 3 tímum...jibbýjei...Núna er ég að vinna í síðustu ritgerðinni, sem þarf að skila á morgun...er reyndar í dálítlum skít þar, gengur ekki nógu hratt fyrir sig..en það hefst allt saman, hef allan morgundaginn líka. Reyndar er eitt smá verkefni sem þarf að skilast í síðasta lagi á föstudaginn, en það tekur enga stund að klára það, bara nokkrar línur um fundinn sem við sátum í Houston. Ég tók svo góðar glósur að það verður bara kökubiti.

Laugardeginum verður væntanlega eytt í að þrífa þessa blessuðu íbúð og þvo þvott...það er farið að flæða úr þvottakörfunni. Þetta er gallinn við að hafa ekki eigið þvottahús, það fara alveg tæpir 2 tímar í að þvo, þó svo að maður ætli að gera eitthvað á meðan vélin er að þvo eða þurrkarinn að þurrka, þá slítur það tímann svo í sundur og manni verður ekki eins mikið úr verki.
Svo sit ég hér og skrifa á bloggið þegar ég ætti að vera að vinna í ritgerðinni...kræst...er ekki nógu öguð...bæti úr því á næstu önn (sagt á hverri einustu önn).

 

0 Ummæli

þriðjudagur, desember 09, 2003

Bookmark and Share
HLAND FYRIR HJARTAÐ

Já, ég fékk sko hland fyrir hjartað áðan....við vorum að keyra á fína bílnum okkar, Kalli undir stýri. Komum að gatnamótum þar sem við ætluðum að beygja til vinstri og það var rautt ljós á okkur svo að við stoppuðum. Svo kom grænt á okkur og bíllinn tók af stað.....skyndilega kom einhver kelling á 'pikköpp' á fleygiferð vinstra megin við okkur og barasta ætlaði sér yfir gatnamótin...gegnt rauðu ljósi. Kalli tók eftir henni, sem betur fer, og snarhemlaði...kellingin klossbremsaði þegar hún fattaði hvað hún var að gera og það munaði örfáum sentimetrum að hún hefði lent á fína bílnum okkar...og svo brunaði hún áfram yfir gatnamótin. Hún hafði ekki einu sinni tök á að sveigja hjá okkur, á svo mikilli ferð var hún. Úff...ef Kalli hefði ekki tekið eftir henni og haldið áfram þá hefði hún lent inni í hliðinni á okkur...já, ég fékk sko hland fyrir hjartað!!!

Ég teiknaði þetta upp í tölvunni til að útskýra hlandið.

 

0 Ummæli

mánudagur, desember 08, 2003

Bookmark and Share

 

0 Ummæli

sunnudagur, desember 07, 2003

Bookmark and Share
Ég fór til Houston í morgun í einum kúrsinum. Þurfti að vakna fyrir sex þar sem mæting var klukkan hálf níu í Houston, en það tekur um 1 1/2 tíma að aka þangað. Við hittumst á hótelinu þar sem ráðstefnan var haldin, Dr. Larke, sem er kennarinn okkar, kynnti okkur fyrir vinkonu sinni, Dr. Geneva Gay (ég veit, rosa sniðugt eftirnafn, haha), en hún skrifaði einmitt eina af bókunum sem við notuðum í kúrsinum. Þar sem ég er svo skýr, tók ég bókina með mér og fékk hana áritaða (þetta er rosa fín bók, ætla ekki að selja hana). Ástæðan fyrir förinni var að fara á LASER ráðstefnu, við sátum einn fund þar fram að hádegi. Eftir hádegismatinn var förinni heitið á Holocaust safnið í Houston. Þetta safn er tileinkað helförinni í seinni heimsstyrjöldinni. Að fara í þetta safn var alveg rosaleg upplifun, maður var gjörsamlega niðurdreginn eftir þetta. Við fengum 'tour' um safnið, og konan sem fylgdi okkur og rakti sögu gyðinganna á þessum hræðilega tíma var orðin klökk undir lokin, samt vinnur hún við þetta. Það er fullt af ljósmyndum, alls konar munum sem gyðingar náðu að bjarga frá nasistunum, og videoklippum af Hitler. Úff, ég mæli sko alveg með því að fara þarna, en sumar myndirnar eru ekki við hæfi viðkvæmra, enda eru þær felldar niður í vegginn þannig að maður getur gengið framhjá þeim án þess að þurfa að horfa á þær. Þetta verður eitthvað svo ljóslifandi fyrir manni, manni hefur alltaf fundist seinni heimsstyrjöldin vera eitthvað sem gerðist fyrir löngu síðan, eitthvað svo fjarlægt sem maður las aðeins um í sögubókum í grunnskóla, en fór aldrei djúpt í. Svo endaði skoðunarferðin í smá bíósal, þar sem sýnd var 20 mínútna mynd, þar sem tekin voru viðtöl við nokka gyðinga sem lifðu af og urðu vitni að því þegar fjölskyldur þeirra voru sendar í gasklefann. Í Houston búa allmargir gyðingar sem komu hingað eftir stríðið og eru það m.a. þeir sem gáfu safninu ýmsa muni og sögðu sögur af því sem þeir upplifðu. Átakanlegt.

 

0 Ummæli

laugardagur, desember 06, 2003

Bookmark and Share
Logi gamli á afmæli í dag....rétt'upp hendi sem vissi það!!!

Til hamingju með daginn, Logi minn!

 

0 Ummæli

föstudagur, desember 05, 2003

Bookmark and Share
Það er allt að sjóða uppúr í Fossaættinni út af þessum könnunum. Mig dreymdi meira að segja að ég væri heima á Fróni og það var einhver dansleikur fyrir austan. Fossapakkið var rosalega skrýtið, enginn hlæjandi eða brosandi, ég heilsaði Jóni Pétri og Helga en hvorugur brosti eða sagði neitt. Allir voru voðalega þurrir á manninn eitthvað. Jón Pétur hefur kannski verið fúll yfir að hafa ekki fengið að vera með í könnununum...(vá!! þetta var flókið orð, næstum eins flókið og mannanafnanefnd...prufið að skrifa það eins hratt og þið getið...og notið lyklaborðið..það virkar ekki eins ef maður notar blað og penna...eða blýant...o.þ.h...djís ég heyri bara fólk snúa út úr því sem ég skrifa og reyni þess vegna að útskýra allt eins vel og ég get...þessi svigi er orðinn ansi langur).

 

0 Ummæli

Bookmark and Share
OMG....(sem þýðir Oh My God á tölvunördamáli).....Hver kaus pabba minn...mér þætti nú gaman að heyra frekjusögur af honum...Mér dettur í hug að hann hafi eitthvað verið að ergja mömmu og hún hafi bara skellt sér á netið og kosið hann frekju!!

 

0 Ummæli

fimmtudagur, desember 04, 2003

Bookmark and Share
Jón verkfræðingur deyr og fer auðvitað upp til himna eins og allir
verkfræðingar.

Þegar þangað kemur leitar Pétur í nafnalistanum og segir svo:

"Því miður Jón minn, þú ert ekki ekki á listanum. Þú verður að fara
niður".

--"En en, ég er verkfræðingur..."

"Já sorrí, en þú ert ekki á listanum !".

Þannig að Jón er sendur niður til helvítis.

Mánuði síðar er Guð að fara yfir nafnalistana og sér að þau mistök hafa
átt sér stað að Jón verkfræðingur hafi óvart verið sendur til helvítis.

Hann bjallar í Satan og biður hann um að skila nú Jóni.

Satan segir strax, "Ekki séns, þú færð Jón sko ekki aftur, þín mistök."

Guð er ekki sáttur og segir, "Láttu ekki svona, Jón er verkfræðingur,
hann á heima á himnum með hinum og þú veist það".

Þá var Satan mikið niðri fyrir og sagði "Sko, áður en Jón kom var
ógeðslega heitt hérna, það var hraunstraumur hér um allt og
brennisteinsfnykur og viðbjóður. Jón breytti þessu öllu. Núna erum við
komin með loftræstingu, brýr, vegakerfi, flóðvarnagarða og ég veit ekki
hvað og hvað, allt hannað af honum.Þetta er orðið helvíti næs hérna hjá
okkur. Það er ekki séns að þú fáir hann".

"Sko Satan, þú lætur mig fá hann aftur, eða ég fer í mál við þig !"

"-Já er það, og hvar þykist þú ætla að fá lögfræðinga..."

 

0 Ummæli

Bookmark and Share
Dagný aðstoðarbloggari sá um að setja afmæliskveðju gærdagsins inn, en Solla frænka átti afmæli. Til hamingju með daginn Solla mín, vonandi áttirðu góðan afmælisdag. Fyrirgefðu að kveðjan skuli koma degi of seint.
Ég á þessa fínu mynd af systrunum og þar sem skanninn er kominn í lag ákvað ég að skella henni inn...Solla er lengst til vinstri, fyrir þá sem ekki vita (vinstri er sko þarna megin ←)

Til hamingju með afmælið, Solla mín.
(Þú ert sko ekki frek, sumir hefðu verið búnir að heimta afmæliskveðju)

 

0 Ummæli

þriðjudagur, desember 02, 2003

Bookmark and Share
já...helgin...hún var alveg rosalega fín. Það var fótboltaleikur á föstudaginn þar sem A&M skíttapaði fyrir UT, ekki gott mál það. Það sem mér finnst svo sniðugt við þennan "ríg" á milli A&M og UT er að fólk er alveg að skjóta á hvort annað, sérstaklega rétt fyrir leik, en þessi lið spila á Thanksgiving á hverju ári, til skiptis hér og í Austin...en áfram með ríginn...svo eftir leikinn fara allir saman á barina og skella í sig nokkrum köldum og fólk er bara að spjalla og skemmta sér, ekkert vesen (alla vega ekki sem ég hef orðið vör við). Við fórum sem sagt á Dixie Chicken (sem er pöbb í Northgate) og fengum okkur nokkra öllara...þar sátum við og skemmtum okkur þangað til lokaði. Eftir það fórum við heim og sóttum kassa af bjór og fórum svo heim til Jerods og Kate þar sem við sátum, spjölluðum og spiluðum til 4 um morguninn, en við Kalli gistum hjá þeim um nóttina (morguninn).

Við fórum á fætur um tíuleytið, eftir aðeins sex tíma svefn. Drifum okkur heim, í sturtu og svo var heldið af stað til Hill Top, þar sem amma og afi Kate búa. Þetta er svæði þar sem fullt af ellismellum búa. Við fórum í golf með pabba hennar Kate og afa hennar. Afabróðir hennar býr líka þarna rétt hjá og hann á tvo golfbíla sem við fengum lánaða...það er bara helvíti skemmtilegt að aka þessu. Maður fer mikið hraðar yfir þegar maður er á golfbílum, við spiluðum 18 holur á ca 4 tímum. Þetta er mjög skemmtilegur völlur. Mikið landslag, fullt af trjám og fullt fullt fullt af dýrum. Þarna er rosalega mikið fuglalíf, enda er votlendi þarna, svo voru íkornar og dádýr hlaupandi um, algjörar dúllur!!! Það var ekki gott þegar maður lenti inn á milli trjánna og var að reyna að skjóta boltanum inn á völlinn. Stundum skaut maður í tré og boltinn skaust til baka. Það segir sitt um skorið sem maður fékk, hmmm...tölum ekki meira um það. Þetta var reyndar bara í annað skiptið sem ég spila golf síðan við komum hingað í ágúst, og mikið rosalega er maður fljótur að ryðga í þessu. Við rétt náðum að klára hringinn fyrir myrkur (reyndar var síðasta holan spiluð í myrkri). Svo fórum við heim til 'Nana' og
"Poppy", en það eru amman og afinn kölluð. Þar fengum við dýrindis chili, sem Kalli grey var ekki par hrifinn af því það eru baunir í því...tíhíhí..soddan gikkur. Eftir matinn settust allir við borðið og það var spilað. Þetta er mikil spilafjölskylda, sem er mjög fínt þar sem okkur finnst gaman að spila...og við erum búin að læra nokkur ný spil, sem Fossapakkið fær að læra um jólin, hvort sem því líkar betur eða verr...bíðiði bara (verð að frekjast svolitið til að standa undir nafni)!!!
Sunnudagurinn fór svo í námið...maður verður víst að sinna því líka.

 

0 Ummæli

mánudagur, desember 01, 2003

Bookmark and Share
Þið eruð nú meiri vitleysingarnir ef þið haldið að ég ætli virkilega að fara að punga út fyrir einhverjum verðlaunum...Það kemur ekki til mála. Ég verð að fara að standa undir þessum frekjuvæntingum sem fólk virðist vera að hafa til mín og ætla frekar að kaupa mér eitthvað flott, í staðinn fyrir að spreða í verðlaun fyrir frekjur eða eitthvað gott fólk sem lætur einhverjar frekjur vaða yfir sig daginn út og daginn inn. Ef ykkur langar í verðlaun þá getið þið bara keypt þau sjálf eða búið þau til. Svo óska ég hér með eftir frekjusögum af þeim sem hafa fengið flest stigin í könnununum....standið nú fyrir máli ykkar!!!

 

0 Ummæli